Yfirlýsing KA ætti ekki að hafa áhrif á Akureyri

Sverre Jakobsson þjálfar Akureyri handboltafélag.
Sverre Jakobsson þjálfar Akureyri handboltafélag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og mikla athygli hefur vakið sendi KA frá sér yfirlýsingu í gær um að samningur um samstarf KA og Þórs í knattspyrnu og handknattleik í kvennaflokki yrði ekki endurnýjaður.

Sjá frétt mbl.is: KA slít­ur sam­starfi við Þór

Knattspyrnulið Þórs/KA hefur verið rekið af Þór og handknattleikslið KA/Þórs af KA. Liðin hafa sameinast í 2. flokki í báðum greinum, en bæði félög starfrækja yngri flokka upp að því.

Sama er uppi á teningnum í karlaflokki í handknattleik, þar sem Akureyri handboltafélag tekur við eftir 3. flokk KA og Þórs í handknattleik. Akureyri heldur úti meistaraflokki og 2. flokki, en munurinn er hins vegar sá að um er að ræða sjálfstætt félag – ekki eiginlegt samstarf KA og Þórs líkt og kvennamegin.

Samningur til tíu ára enn í gildi

Akureyri handboltafélag hefur teflt fram liði í meistaraflokki karla frá árinu 2006. Liðið varð deildarmeistari veturinn 2010-2011 og tapaði í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn.

Árið 2010 var undirritaður samningur til tíu ára á milli KA og Þórs um að tefla áfram fram sameiginlegu liði. Inni í þeim samningi var ákvæði um endurskoðun að fimm árum liðnum, árið 2015. Þegar þetta ákvæði kom til skoðunar var einhugur um áframhaldandi og óbreytt samstarf um Akureyri handboltafélag.

Samningur KA og Þórs um sameiginleg kvennalið í knattspyrnu og handknattleik rann út í haust og því er ekki um riftun á samningi að ræða. Eigi að brjóta upp Akureyri handboltafélag þýðir það hins vegar að rifta þyrfti samningi með vilyrði beggja aðildarfélaga, KA og Þórs.

Alltaf hægt að bæta samstarfið 

Þegar mbl.is leitaði viðbragða hjá Akureyri handboltafélagi í dag var það staðfest að yfirlýsing KA í gær ætti ekki að hafa áhrif á félagið, enda sér samningur í gildi. Þá var undirstrikað að ef gengið yrði lengra og einnig hætt samstarfi karlamegin í handboltanum þyrftu bæði félög, KA og Þór, að samþykkja riftun á samningi.

Einnig var áréttað að þrátt fyrir að samningurinn sé í gildi um Akureyri handboltafélag til og með 2. flokki mætti alltaf betrumbæta samstarfið á milli félaganna KA og Þórs. Þeirri vinnu væri aldrei lokið.

Sjá fyrri frétt­ir mbl.is:

KA slít­ur sam­starfi við Þór

Undr­ast vinnu­brögð KA: „Kom eins og sleggja“

Vill ekki þjálfa leng­ur hjá KA - „Særði mig mikið“

Erfið ákvörðun fyr­ir alla

„Ekki viss um að ég verði KA stelpa áfram“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert