Valur tók Hauka í kennslustund

Vigdís Birna Þorsteinsdóttir í liði Vals með boltann gegn Haukum …
Vigdís Birna Þorsteinsdóttir í liði Vals með boltann gegn Haukum í kvöld. mbl.is/Golli

Valur komst í þriðja sæti Olís-deildar kvenna í handknattleik með því að leggja Hauka að velli á heimavelli sínum að Hlíðarenda. Lokatölur urðu 25:17 í frekar tilþrifalitlum leik. Staðan í hálfleik var 9:7 fyrir Val. Ástrós Bender átti sannkallaðan stórleik í marki Vals og varði 21 skot, þar af tvö vítaköst. Kristín Guðmundsdóttir var markahæst í liði Vals með níu mörk en Ramune Pekarskyte skoraði fimm mörk fyrir Hauka.

Fyrri hálfleikur fer seint í sögubækurnar. Sóknarleikur beggja liða var dapur en heimakonur þó ögn skárri. Stórleikur Ástrósar Bender í marki Vals lagði grunninn að tveggja marka forskoti að loknum 30 mínútum en Valur þurfti engan stórleik til að hafa yfirhöndina gegn arfaslökum Haukum.

Heimakonur gerðu svo út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks. Sókn Hauka strandaði enn á Ástrósu og sókn Valskvenna gekk miklu betur en í fyrri hálfleik. Valur náði fljótlega sjö marka forystu og sigldi að lokum öruggum átta marka sigri í höfn.

Valur lék lengstum góða vörn og Ástrós var mögnuð í markinu. Haukar vilja sennilega gleyma þessum leik hið fyrsta en ekkert gekk upp hjá Ásvellingum í kvöld.

Valur 25:17 Haukar opna loka
60. mín. Leik lokið Mjög öruggur sigur Vals og það er ekki síst markverðinum Ástrósu Bender að þakka. Takk í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert