Megum ekki gleyma okkur í gleðinni

Sander Sagosen, Joakim Hykkerud og Christian Berge hlaupa inn á …
Sander Sagosen, Joakim Hykkerud og Christian Berge hlaupa inn á leikvöllinn eftir að flautað var af í viðureign þeirra og Ungverja í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í Albertville í Frakklandi. AFP

Norðmenn eru í sjöunda himni eftir að landslið þeirra tryggði sér sæti í undanúrslitum í fyrsta sinn á heimsmeistaramóti í handknattleik karla í kvöld. Christian Berge landsliðsþjálfari segist vona að menn hafi lært af reynslunni frá EM fyrir ári síðan. Þá komst norska landsliðið einnig í undanúrslit en tapaði tveimur síðustu leikjum sínum og hafnaði í fjórða sæti. 

Norska landsliðið vann það ungverska, 31:28, í 8-liða úrslitum í kvöld.

„Við megum ekki gleyma okkur í gleðinni. Nauðsynlegt er að við höldum einbeitingu og náum lengra en í fyrra,“ sagði Berge m.a. við norska fjölmiðla í kvöld. „Það er látlaus vinna fram undan hjá okkur til þess að ná verðlaunum,“ sagði Berge enn fremur en Norðmenn mæta Króötum í undanúrslitum í Bercy-höllinni í París á föstudagskvöldið. 

„Eftir að hafa farið tómhentir heim af EM í fyrra þá erum við staðráðnir að fara heim með verðlaun að þessu sinni og verða fyrsta norska karlalandsliðið í handknattleik sem fer á verðlaunapall á stórmóti,“ sagði leikstjórnandinn ungi, Sander Sagosen. 

Mikil bjartsýni ríkir víða meðal handboltaáhugamanna í Noregi. Sumir vonast til að nú sé að renna upp sigurskeið í norskum karlahandknattleik og að karlalandsliðið geti fylgt í kjölfar kvennalandsliðsins sem hefur verið nær ósigrandi á stórmótum um langt árabil. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert