Nánasta framtíð er tryggð

Birna Berg Haraldsdóttir verður hjá Glassverket í Noregi út keppnistímabilið …
Birna Berg Haraldsdóttir verður hjá Glassverket í Noregi út keppnistímabilið hið minnsta. mbl.is/Eggert

Tryggt hefur verið að Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik, leiki með norska úrvalsdeildarliðinu Glassverket til loka keppnistímabilsins.  Samningur þess efnis er í höfn og óvissa hefur ríkt um framtíð félagsins um nokkurt skeið eftir hefur verið eytt.

Óvíst var áframhaldandi rekstur félagsins eftir að upp komst um verulegan fjárdrátt úr sjóðum félagsins nokkru fyrir áramót en þar átti í hlut starfsmaður á skrifstofu félagsins. Þá voru allir samningar við leikmenn í uppnámi. 

„Mín mál eru komin á hreint. Ég verð hjá Glassverket út keppnistímbilið hið minnsta,” sagði Birna Berg í samtali við mbl.is fyrir stundu.  Birna verður að sætta sig við talsverða lækkun launa á næstu mánuðum, en allt er skárra en ekkert. Um tíma leit út fyrir að leikmenn fengju jafnvel ekkert greitt og yrðu leystir undan samning og félagið leyst upp vegna fjárhagserfiðleika. Nú hefur tekist að tryggja reksturinn til næstu mánaða.

Birna Berg hefur leikið afar vel með Glassverket á leiktíðinni en hún kom til félagsins á síðasta sumri, m.a. vegna þess að félagið var þekkt fyrir að vera fjárhagslega sterkt. Sú staðreynd breyttist fljótt.

Glassverkert er í þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 17 stig eftir 11 leiki og er stigi á eftir Vipers sem önnur landsliðskona, Þórey Rósa Stefánsdóttir, leikur með og á leik til góða. Larvik hefur yfirburði í deildinni eins og fyrri ár, er með fullt hús stiga úr 12 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert