„Fengum aukna trú á okkar getu“

María Karlsdóttir mun ásamt liði Hauka glíma við Framkonur í …
María Karlsdóttir mun ásamt liði Hauka glíma við Framkonur í undanúrslitum. mbl.is/Golli

„Það má ekki fara fram úr sér heldur reyna að hitta á rétta spennustigið,“ sagði María Karlsdóttir, leikmaður Hauka, í samtali við mbl.is í aðdraganda undanúrslitaleiks Coca Cola-bikarsins í handknattleik gegn Fram sem fram fer á morgun.

Fram-liðið hefur verið á mikilli siglingu í deildinni í vetur og er á toppi deildarinnar, en tapaði nokkuð óvænt tveimur leikjum í röð fyrir skömmu. Meðal annars töpuðu þær fyrir Haukum á Ásvöllum, sem María segir að gefi liði sínu byr undir báða vængi.

„Já, algjörlega. Sá leikur sýndi líka að við fengum aukna trú á okkar getu og að það er hægt að vinna Fram. En við áttum góðan leik þá og það þarf að gerast aftur til þess að vinna þær. Það gerist ekkert með hangandi hendi,“ sagði María, en hvað mun þurfa til þess að komast í úrslitaleikinn á laugardag?

Draumur að bæði lið Hauka myndu lyfta bikarnum

„Ég held að þetta muni ráðast á því hvort liðið mætir klárt til leiks og hvort liðið byrjar betur. Það hefur oft eitthvað að segja þegar uppi er staðið. En stemningin er mjög góð hjá okkur og við erum allar mjög spenntar fyrir helginni,“ sagði María.

Talandi um stemningu eru bæði karla- og kvennalið Hauka í undanúrslitum og segir María það skapa aukna eftirvæntingu í Hafnarfirðinum.

„Jú, klárlega. Við vorum einmitt að ræða það að Haukastrákarnir hafa dottið út úr undanúrslitum síðustu tvö ár og við stelpurnar síðustu fjögur ár, svo það er alveg kominn tími á að fá úrslitaleik. Og hvað þá að lyfta bikarnum, það væri klárlega draumurinn að bæði lið myndu gera það,“ sagði María Karlsdóttir í samtali við mbl.is.

Leikur Hauka og Fram hefst klukkan 19.30 á morgun og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert