Yfirleitt sama uppskriftin að sigri

Sólveig Lára Kjærnested, Stjörnunni.
Sólveig Lára Kjærnested, Stjörnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stemningin er rosalega góð og við erum mjög spenntar,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is í aðdraganda undanúrslitaleiks Coca Cola-bikarsins í handknattleik gegn Selfossi sem fram fer á morgun.

„Við höfum spilað tvisvar við þær núna á stuttum tíma svo við þekkjum þær ágætlega og þær þekkja okkur ágætlega,“ sagði Sólveig. Stjarnan er ríkjandi meistari, en Sólveig telur að það séu engin geimvísindi að baki bikarsigri.

„Þetta er yfirleitt það sama sem þarf að ganga upp. Við þurfum að ná vörninni okkar upp og koma markmanninum okkar í gang og reyna að keyra aðeins á þær. Ég held að þetta sé alltaf sama uppskriftin, hvort sem er bikarleikur eða deildarleikur,“ sagði Sólveig Lára.

Erfiðara að smala fólki úr Garðabæ

Selfoss er í fyrsta sinn í undanúrslitarimmu bikarsins, sem fram fer með svokölluðu „Final Four“-fyrirkomulagi í Laugardalshöllinni, og reiknar Sólveig með að þær mæti mjög grimmar til leiks.

„Ég held að þær muni mæta mjög grimmar í leikinn. Þær eru stemningslið og ég hugsa að bæjarfélagið mæti með þeim, á meðan það er vetrarfrí í Garðabæ svo það er eflaust aðeins erfiðara að smala fólkinu okkar. Ég reikna því með mikilli stemningu þeirra megin og við reynum að mæta því,“ sagði Sólveig, og er tilbúin að láta öskrandi Selfyssinga í stúkunni ekki hafa áhrif á sig.

„Já, eða nota það sem meðbyr. Það er oft gott líka og getur bara verið skemmtilegra,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested við mbl.is.

Leikur Stjörnunnar og Selfoss hefst klukkan 17.15 á morgun og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert