„Yndislegt að sjá til Hafdísar“

Rakel Dögg Bragadóttir.
Rakel Dögg Bragadóttir. mbl.is/Golli

Rakel Dögg Bragadóttir lék vel þegar Stjarnan hafði betur gegn Fram, 19:18, í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins í handbolta í Laugardalshöll í dag.

Stjarnan byrjaði leikinn með látum og komst í 11:3. „Geggjaður kafli. Frábært að sjá hvernig við mættum tilbúnar í leikinn. Ég hef aldrei séð eins mikla varnarvinnu hjá okkur og Hafdís [Renötudóttir markvörður] var í banastuði fyrir aftan okkur. Hún hefur verið frábær eftir áramót og svo stígur hún fram í svona leik. Yndislegt að fylgjast með henni. Við ætluðum að taka bikarinn og mér fannst það ljóst frá fyrstu mínútu,“ sagði Rakel þegar mbl.is ræddi við hana en Stjörnunni gekk ekki eins vel í síðari hálfleik og þá tókst Fram að jafna en Frömurum tókst þó aldrei að komast yfir. 

Hvað fór í gegnum hugann hjá Rakel þegar Fram jafnaði og tíu mínútur voru enn þá eftir af leiknum? „Ég hugsaði bara um næstu vörn og næstu sókn. Við vissum alveg að það er erfitt að halda átta marka forskoti út nánast heilan bikarúrslitaleik. Svona leikir eru spennuleikir og þær unnu sig inn í leikinn. Við misstum ekki hausinn og héldum áfram þótt þær jöfnuðu og það fannst mér æði,“ sagði Rakel Dögg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert