Guðmundur Hólmar sleit tvö liðbönd

Guðmundur Hólmar Helgason í landsleik.
Guðmundur Hólmar Helgason í landsleik. Ljósmynd/Foto Olimpik

Guðmundur Hólmar Helgason, landsliðsmaður í handknattleik, verður frá æfingum og keppni næstu tvo mánuðina eða svo eftir að í ljós kom að meiðsli hans fyrir helgi eru jafnalvarleg og óttast var. Þetta staðfesti hann við mbl.is í kvöld.

Guðmundur Hólmar meiddist á æfingu hjá liði sínu Cesson-Rennes á fimmtudag og sagði við mbl.is fyrir helgi að hann hefði verið í hraðaupphlaupi og misstigið sig mjög illa. Hann fór beint í röntgenmyndatöku og var óbrotinn, en var í gifsi fram yfir helgi. Í skoðun í dag kom svo í ljós hvers kyns var.

Niðurstaðan er sú að tvö liðbönd í ökkla eru slitin og var Guðmundi tjáð að hann væri úr leik næstu tvo mánuðina eða svo. Hann fer í frekari skoðun hjá ökklasérfræðingi í vikunni sem segir honum meira um framhaldið.

„Endurhæfing hefst strax á morgun, nú er bara að koma sterkari til baka og allar klisjurnar,“ sagði Guðmundur Hólmar við mbl.is nú í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert