Hreiðar Levý fer heim í KR

Hreiðar Levý Guðmundsson.
Hreiðar Levý Guðmundsson. mbl.is/Eva Björk

Handknattleiksmarkvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við KR og mun koma til félagsins í sumar.

Hreiðar er uppalinn í KR, spilaði svo með sameiginlegu liði Gróttu/KR þar sem hann varð meðal annars bikarmeistari í 2. flokki. Hann kemur frá liði Halden í Noregi, en þar áður hafði Hreiðar spilað með Akureyri.

Hreiðar hefur leikið sem atvinnumaður í Svíþjóð, Þýskalandi og Noregi og á að baki 146 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann var meðal annars í silfurliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.

„Ég er virkilega ánægður með að vera kominn aftur heim í Vesturbæinn. Það eru nokkur ár frá því að ég klæddist KR-treyjunni síðast – en get ekki beðið eftir því að smella mér í hana aftur. Þegar ég var búinn að ákveða að snúa aftur heim kom aldrei neitt annað félag en KR til greina. Þá er ég mjög spenntur fyrir því að taka þátt í þjálfun markmanna félagsins og tel mig hafa margt fram að færa í þeim efnum. Það eru spennandi tímar fram undan hjá KR í handboltanum og mikil áskorun fyrir mig sem leikmann að taka þátt í þessu verkefni,“ sagði Hreiðar Levý Guðmundsson við heimasíðu KR.

KR er sem stendur í 2. sæti 1. deildarinnar í harðri baráttu um sæti í efstu deild. Sigurvegari 1. deildar fer beint upp og næstu fjögur lið spila um hitt sætið í efstu deild. Það er því alls óvíst í hvorri deildinni Hreiðar mun koma til með að spreyta sig í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert