Lenti á liðsfélaga og sleit liðband

Oddur Gretarsson.
Oddur Gretarsson. Ljósmynd/tvemsdetten.com

„Í draumaheimi næ ég grannaslag við Nordhorn næstu helgi,“ sagði Oddur Gretarsson, leikmaður Emsdetten í þýsku 2. deildinni í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið. Oddur er með sködduð eða slitin ytri liðbönd í ökkla.

„Þetta gerðist á æfingu, ég lenti á fæti liðsfélaga eftir uppstökk. Ég var í gifsspelku fyrstu tvo sólarhringana en eftir það er nauðsynlegt að hefja endurhæfingu, liðka liðinn og fá blóðflæðið af stað til að flýta batanum,“ sagði Oddur, sem er þriðji markahæsti leikmaður Emsdetten í vetur með 90 mörk.

„Þetta eru ekki fyrstu ökklameiðslin sem ég lendi í og ég veit að það er bjartsýni að ná næsta leik, en bjartsýni er nauðsynleg,“ sagði Oddur, en án hans vann liðið útisigur á Konstanz á laugardag. Emsdetten er í 10. sæti deildarinnar, en Oddur mun í sumar færa sig um set til Balingen sem leikur í 1. deild og er hann ákveðinn að komast af stað sem fyrst.

„Ég finn dagamun á mér en það er enn þá smá bólga til staðar og mar. Það er undir mér sjálfum komið að vinna í fætinum oft á dag og vera leikhæfur sem fyrst. Verður svo bara að koma í ljós hvenær það verður. Núna er markmiðið að ná næsta leik. Ef ekki, þá næsta,“ sagði Oddur Gretarsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert