Hefðum þegið þægilegra ferðalag

Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik.
Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vitum akkúrat ekkert um þetta lið þar sem drátturinn er rétt afstaðinn en nú förum við á fullt að skoða það,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara bikarmeistara Vals í handknattleik, við mbl.is þegar hann var inntur eftir viðbrögðum um dráttinn í átta liða úrslitum í Áskorendakeppni Evrópu en Valur dróst á móti Sloga Pozega frá Serbíu.

„Þetta verður bara áskorun sem verður spennandi að takast á við. Við hefðum alveg þegið þægilegra ferðalag en þetta er niðurstaðan,“ sagði Guðlaugur.

Valsmenn léku báða leikina við Partizan í 16-liða úrslitunum í Svarfjallalandi en Guðlaugur segist ekkert vita hvernig málum verði háttar hvað leikina við serbneska liðið.

„Þetta ferli fer bara í gang á næstu dögum og það verður bara að koma í ljós hvað verður. Við verðum líka að meta það eftir styrkleika þessa liðs. Við mátum stöðuna gagnvart Partizan að við gætum unnið einvígið þrátt fyrir að spila báða leikina á þeirra heimavelli. En það er ekkert launungarmál að við höfum mikinn áhuga á að komast lengra í keppninni,“ sagði Guðlaugur.

Sigurliðið úr rimmu Sloga Pozega og Vals mætir sigurliðinu úr einvígi Potaissa Turda frá Rúmeníu og Dudelange frá Luxemborg í undanúrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert