Arnór kemur til starfa hjá Fjölni

Arnór Ásgeirsson verðandi þjálfari kvennaliðs Fjölnis í handknattleik og væntanlegur …
Arnór Ásgeirsson verðandi þjálfari kvennaliðs Fjölnis í handknattleik og væntanlegur framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar. Ljósmynd/aðsent

Arnór Ásgeirsson tekur við þjálfun meistaraflokksliðs Fjölnis í handknattleik kvenna eftir yfirstandandi keppnistímabil. Hann mun taka við starfi framkvæmdastjóra handknattleiksdeildar Fjölnis. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjölni. Arnór tekur við þjálfun kvennaliðsins af Andrési Gunnlaugssyni. Fjölnir er um þessar mundir í öðru sæti 1. deildar kvenna og tekur væntanlega þátt umspilsleikjum um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. 

Arnór er uppalinn Fjölnismaður, segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild Fjölnis.  Fyrst sem leikmaður og síðar þjálfari. Hann hefur þjálfað alla aldursflokka kvenna auk yngstu flokka drengja.

Að loknu námi í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík lá leið Arnórs í framhaldsnám í Noregs. Eftir tveggja ára framhaldsnám í Sport Management (íþróttastjórnun) í Molde þar sem hann meðal annars var aðstoðarþjálfari Einars Jónssonar hjá kvennaliði félagsins í 1. deild, aðalþjálfari karlaliðsins í 2. deild og þjálfari U16 strákaliðs fékk hann stöðu íþróttastjóra hjá Fjellhammer. Því starfi hefur hann sinnt síðastliðið ár ásamt því að þjálfa U16 kvenna lið félagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert