FH fór upp fyrir Aftureldingu

Jóhann Birgir Ingvarsson úr FH reynir skot að marki Aftureldingar.
Jóhann Birgir Ingvarsson úr FH reynir skot að marki Aftureldingar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

FH-ingar fögnuðu góðum sigri gegn Aftureldingu, 30:26, í Olís-deild karla í handknattleik á heimavelli sínum í Kaplakrika í kvöld og komust þar með upp fyrir Mosfellinga í þriðja sæti deildarinnar. FH er tveimur stigum á eftir toppliðunum ÍBV og Haukum en á leik til góða gegn Gróttu í Krikanum á sunnudaginn.

Staðan var jöfn í hálfleik, 12:12, þar sem FH-ingar voru skrefinu á undan. FH-ingar lögðu grunninn að sigri sínum með góðum leikkafla snemma í seinni hálfleik. Þeir breyttu stöðunni úr 16:16 í 21:16 og eftir það héldu þeir fengnum hlut þrátt fyrir tilraunir Mosfellinga að komast inn í leikinn.

Einar Rafn Eiðsson, Jóhann Birgir Ingvarsson og Óðinn Ríkharðsson voru öflugir í sóknarleik FH-inga en vörn Hafnarfjarðarliðsins var öflug mest allan leikinn og markvarslan nokkuð góð á köflum.

Það hefur ekki gengið sem skildi hjá Aftureldingu á árinu og einn sigur í deildinni eftir áramótin ber vott um það. Slæmur kafli í seinni hálfleik varð Mosfellingum að falli og það var eins og þeir misstu trúna þegar þeir lentu fimm mörkum undir.  Besti maður liðsins var Ernir Hrafn Arnarson og Mikk Pinnonen átti fína spretti en það munaði um minna að Árni Bragi Eyjólfsson náði sér engan veginn á strik og komst ekki á blað í leiknum og markverðir liðsins voru ekki öfundsverðir þar sem vörn liðsins var ansi götótt.

FH 30:26 Afturelding opna loka
60. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert