Miklu betra en í síðustu leikjum

Einar Rafn Eiðsson skoraði 9 mörk í kvöld í sigri …
Einar Rafn Eiðsson skoraði 9 mörk í kvöld í sigri FH-inga. mbl.is/Golli

Einar Rafn Eiðsson fór mikinn í liði FH-inga í sigri þeirra gegn Aftureldingu í Olís-deildinni í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

Einar Rafn var markahæstur FH-inga í leiknum með 9 mörk sem hann skoraði mörg hver með þrumuskotum sem markverðir Mosfellinga réðu ekki við.

„Ég var virkilega ánægður með leik okkar í kvöld og þetta var miklu betra heldur en í síðustu leikjum. Við vorum vorum þéttir fyrir í vörninni, vorum fljótir að skila okkur til baka og það var lítið um tæknifeila í sókninni,“ sagði hinn skotfasti Einar Rafn við mbl.is eftir leikinn.

FH er í þriðja sæti deildarinnar, er tveimur stigum á eftir ÍBV og Haukum en á leik til góða gegn Gróttu á sunnudaginn.

„Maður væri ekki í þessu ef maður stefndi ekki á að vinna. Við eigum möguleika á deildarmeistaratitlinum og meðan svo er þá reynum við allt til þess að gera það. Ég tel fullvíst að við þurfum að vinna alla þá þrjá leiki sem við eigum eftir,“ sagði Einar Rafn.

Undirritaður tjáði Einari að ÍBV hefði unnið Haukana með 17 marka mun í Eyjum í kvöld og viðbrögð örvhentu skyttunnar við þeim tíðindum voru;

„Það er kannski smá vindur með Eyjamönnunum núna en við skulum sjá til. Nú einbeitum við okkur bara að leiknum á móti Gróttu á sunnudaginn og það verður erfiður leikur,“ sagði Einar Rafn en auk leiksins á móti Gróttu á FH eftir að mæta Haukum og Selfossi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert