Glæsileg endurkoma Selfyssinga

Ari Magnús Þorgeirsson sækir að marki Selfoss í kvöld.
Ari Magnús Þorgeirsson sækir að marki Selfoss í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Selfoss vann gríðarlega mikilvægan 25:24 sigur á Stjörnunni í fallbaráttuslag í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Selfyssingar fóru langt með að tryggja sæti sitt í deildinni á næsta ári með sigrinum, en Stjarnan hafði fjögurra marka forystu þegar seinni hálfleikur var rúmlega hálfnaður. 

Leikurinn var jafn framan af og var jafn á nánast öllum tölum þangað til í stöðunni 8:8. Þá tók Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar leikhlé sem hafði góð áhrif á hans lið. Stjarnan komst í 12:9, en Elvar Jónsson skoraði síðasta mark hálfleiksins og minnkaði muninn í 12:10.

Selfyssingar gátu sjálfum sér um kennt að vera undir í hálfleik. Í rúmlega fimm mínútur var sóknarleikur Stjörnunnar skelfilegur, höndin kom upp í sókn eftir sókn, og hefðu gestirnir austan við fjall getað nýtt sér það betur.

Stjarnan hafði undirtökin í seinni hálfleik og var staðan 21:17 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Selfyssingar gáfust hins vegar ekki upp, þeir skoruðu næstu fjögur mörk leiksins og jöfnuðu í 21:21 þegar átta mínútur voru til leiksloka.

Selfyssingar komust í 23:22 þegar fjórar mínútur voru eftir og var það í fyrsta skipti síðan í stöðunni 7:6 sem Selfoss var yfir í leiknum. Einar Sverrisson kom Selfossi svo í 25:24 þegar mínúta var eftir. Stjarnan missti boltann í næstu sókn og Selfyssingar sigldu sigrinum heim. 

Selfyssingurinn Einar Sverrisson á skot að marki Stjörnunnar í kvöld.
Selfyssingurinn Einar Sverrisson á skot að marki Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
Stjarnan 24:25 Selfoss opna loka
60. mín. Stjarnan tapar boltanum Hálf mínúta eftir. Langt komið hjá Selfyssingum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert