Sjöundi leikurinn í Meistaradeildinni

Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson dæma stórleik í París …
Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson dæma stórleik í París á laugardaginn. mbl.is/Eggert

Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma sinn sjöunda leik í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla á þessari leiktíð í París næsta laugardag. 

Þeir félagar hafa verið settir dómarar á síðari viðureign frönsku liðanna Paris SG og Nantes í 16-liða úrslitum sem fram fer í Stade Pierre de Coubertin í París. Flautað verður til leiks klukkan 17. 

Um sannkallað uppgjör frönsku stórliðanna er að ræða en þau skildu jöfn, 26:26, á heimavelli Nantes, Salle Sportive de la Trocardiere, á laugardaginn var. Með liðunum tveimur leika margir af fremstu handknattleiksmönnum Frakklands en einnig stórstjörnur annarra þjóða s.s. Mikkel Hansen og Uwe Gensheimer. 

Eins og áður segir er þetta sjöundi leikurinn sem Anton og Jónas dæma í Meistaradeildinni á þessu keppnistímabili. Þeir dæmdu einnig marga leiki í keppninni á síðasta ári, m.a. viðureignina um þriðja sæti á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar í Köln. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert