„Glórulaust rautt spjald“

Hákon Daði Styrmisson skorar gegn FH en það dugði ekki …
Hákon Daði Styrmisson skorar gegn FH en það dugði ekki til fyrir Hauka. mbl.is/Árni Sæberg

Þjálfarinn Gunnar Magnússon var eðlilega mjög svekktur eftir 30:28 tap Hauka gegn FH í Olís-deild karla í handbolta en liðin mættust að Ásvöllum. Tapið þýðir að Haukar eru í þriðja sæti og eiga ekki lengur möguleika á deildarmeistaratitlinum.

„Þetta var mjög erfið byrjun og við vorum varnarlega mjög flatir og hikandi. Fyrstu 15 mínúturnar erum við í engum takti og það er svekkjandi hversu lengi við erum að koma okkur í gang.“

„Engu að síður erum við búnir að snúa dæminu við og komnir yfir. Þá fannst mér við hafa fín tök á þeim en þessi leikur gat fallið hvoru megin sem var. Munurinn er sá að þeir héldu haus í 60 mínútur en við bara í 55 mínútur. Öll mikilvægu augnablikin falla með þeim en það skrifast á okkar klaufaskap. Við eigum að nýta þá ágætu stöðu sem við vorum búnir að vinna okkur inn en missum þess í stað hausinn síðustu fimm mínútur leiksins og því fór sem fór.“

Heimir Óli Heimisson fékk réttilega rautt spjald fyrir gróft brot þegar skammt var eftir. Gunnar gat ekki leynt vonbrigðum sínum með þetta brot Heimis.

„Þetta er bara glórulaust. Reyndur leikmaður eins og Heimir á ekki að missa hausinn á svona mikilvægu augnabliki. Deildarmeistaratitillinn er í húfi og tvö stig hefðu komið okkur í kjörstöðu. Það er mjög mikilvægt í svona Hafnarfjarðarslag að halda haus og það var það sem við töluðum um fyrir leikinn. Því miður brást það undir lokin. Það var mikið í húfi og við erum sárir að taka ekki tvö stig,“ sagði Gunnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert