Sveinbjörn bjargaði stigi

Leonharð Þorgeir Harðarson úr Gróttu í dauðafæri og Guðmundur Sigurður …
Leonharð Þorgeir Harðarson úr Gróttu í dauðafæri og Guðmundur Sigurður Guðmundsson úr Stjörnunni fylgist með. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinbjörn Pétursson tryggði Stjörnunni mikilvægt stig í botnbaráttunni í kvöld þegar hann varði langskot Elvars Friðrikssonar, leikmanns Gróttu á síðustu sekúndu í viðureign liðanna á Seltjarnarnesi í Olís-deild karla í handknattleik, lokatölur 31:31. Nokkrum sekúndum áður hafði Sverrir Eyjólfsson jafnað metin fyrir Stjörnuna sem mætir Akureyri í úrslitaleik um að forðast fall úr deildinni á þriðjudaginn í TM-höllinni í Garðabæ.

Einu stigi munar á liðunum og annað þeirra verður neðst og fellur örugglega. Akureyri hefur 18 stig en Stjarnan er tveimur stigum á undan og nægir jafntefli en Akureyri verður að vinna þann leik. Stjarnan á líka möguleika á að ná áttunda sæti og komast í úrslitakeppnina, með sigri eða jafntefli gegn Akureyri. Grótta er komin í úrslitakeppnina.

Fyrri hálfleikur var hraður og skemmtilegur. Ekki var mikið um varnir en þeim mun meiri ákefð í sóknarleiknum. Leikurinn var jafn fram undir hann miðjan þegar Stjarnan náði þriggja marka forskoti, 12:9. Gróttumenn nýttu sér vel að verða manni fleiri og jöfnuðu metin, 14:14. Stjörnumenn, sem voru ákafari og snarpari, komust yfir aftur og voru verðskuldað með tveggja marka forskot í hálfleik, 18:16. Staða þeirra var vænleg en leikmenn liðsins hafa vafalaust ekkert vitað af stiginu sem Akureyri önglaði í gegn ÍBV.

Stjarnan byrjaði síðari hálfleik af krafti og náði fimm marka forskoti, 21:16, og síðar fjórum mörkum, 24:20, þegar níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Gróttumenn bitu frá sér og komust yfir með góðum tíu mínútna kafla, 26:25. En það var baráttuhugur í Garðbæingum og þeim tókst að snúa leiknum sér í hag á ný og fimm mínútum fyrir leikslok voru þeir með tveggja marka forskot, 29:27. Stjarnan fór illa að ráði sínu í sóknarleiknum og Lárus Helgi Ólafsson vaknaði í markinu.

Mínútu fyrir leikslok var staðan jöfn, 30:30, og Grótta var í sókn sem lauk með að Aron Dagur Pálsson skoraði 31. mark heimaliðsins 42 sekúndum fyrir leikslok.  Stjörnumenn lögðu á ráðin. Sverrir Eyjólfsson jafnaði metin, 31:31, þegar sex sekúndur voru til leiksloka og Sveinbjörn Pétursson markvörður varði skotið mikilvæga frá Elvari Gróttumanni á síðustu sekúndu. 

Grótta 31:31 Stjarnan opna loka
60. mín. Stjarnan tekur leikhlé - 39 sekúndur til leiksloka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert