FH færist nær titlinum

Jóhann Birgir Ingvarsson á skot að marki Hauka í leiknum …
Jóhann Birgir Ingvarsson á skot að marki Hauka í leiknum í kvöld. Til varnar eru Adam Haukur Baumruk og Jón Þorbjörn Jóhannsson. mbl.is/Árni Sæberg

FH er með pálmann í höndunum að landa deildarmeistaratitlinum í Olís-deild karla í handknattleik. FH vann sætan 30:28 sigur á erkifjendum sínum í Haukum þegar liðin mættust á Ásvöllum og getur nú tryggt sér titilinn með jafntefli gegn Selfossi á heimavelli í síðustu umferðinni.

FH er með 35 stig, ÍBV 34 og Haukar 33 stig fyrir lokaumferðina þar sem FH og ÍBV munu berjast um deildarmeistaratitilinn. FH nægir stig vegna hagstæðra innbyrðis úrslita gegn ÍBV í vetur. Haukar eiga ekki möguleika vegna innbyrðis úrslita og um leið ná þeir aðeins öðru sæti ef ÍBV tapar fyrir Val og þeir vinna Aftureldingu.

Fyrri hálfleikur var mjög kaflaskiptur. FH virtist ætla að keyra yfir Hauka og láta Íslandsmeistarana þola aðra niðurlægingu sína á skömmum tíma en Haukar steinlágu með 17 marka mun gegn ÍBV í síðustu umferð. FH komst í 10:4 og á þessum kafla léku gestirnir sér að Haukum.

Heimamenn hresstust þegar leið á hálfleikinn og drifnir áfram af stórleik Ivans Ivkovic minnkuðu Haukar muninn í eitt mark. Guðmundur Árni Ólafsson klúðraði hraðupphlaupi um 15 sekúndum fyrir lok fyrri hálfleiks og í stað þess að Haukar næðu að jafna metin skoraði hinn magnaði Ásbjörn Friðriksson sitt sjöunda mark og tryggði FH tveggja marka forskot, 16:14, að loknum fyrri hálfleik.

Það tók Hauka korter að éta upp þetta nauma forskot og Tjörvi Þorgeirsson kom heimamönnum yfir 22:21 með góðu skoti. Leikurinn var svo hnífjafn og skemmtilegur alveg til loka.

FH komst tveimur mörkum yfir einni mínútu fyrir leikslok með vítakasti Ásbjörns Friðrikssonar en Haukar voru mjög ósáttir að vítakastið hafi verið dæmt. Einar Rafn Eiðsson virtist keyra Hákon Daða Styrmisson niður og Haukamenn heimtuðu ruðning. Dómarar leiksins sögðu nei og Ásbjörn skoraði.

Ivkovic minnkaði muninn í eitt mark og allt á suðupunkti þegar FH hélt í síðustu sókn sína. Þegar sú sókn virtist vera að fjara út, kom Gísli Þorgeir Kristjánsson boltanum inn á línu til Jóhanns Karls Reynissonar sem skoraði og tryggði FH montréttinn fræga í firðinum.

Ásbjörn Friðriksson skoraði 9 mörk fyrir FH en Ivan Ivkovic skoraði 10 mörk fyrir Hauka.

Haukar 28:30 FH opna loka
60. mín. Jóhann Karl Reynisson (FH) skoraði mark Tryggir þetta og líklega FH deildarmeistaratitilinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert