„Bjóst ekki við svo stórum sigri“

Ýmir Örn Gíslason.
Ýmir Örn Gíslason. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ýmir Örn Gíslason stóð sig virkilega vel í miðri vörn Vals á Hlíðarenda í dag, þegar Valur sigraði Potaissa frá Rúmeníu 30:22, í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu. 

„Við spiluðum vel. Sérstaklega í vörninni. Fengum á okkur átta mörk í fyrri hálfleik og fjórtán í seinni sem var aðeins of mikið. Hikstuðum aðeins í sókninni í framan af í seinni hálfleik en þeir skiptu yfir í 6-0 vörn. Ég skil ekki alveg af hverju en þá bara hrökk sóknin í gang hjá okkur,“ sagði Ýmir sem sagðist hafa séð aðeins til Potaissa en ekki mikið. 

„Flestir í liðinu horfðu á Potaissa þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum. Það var það eina sem ég hafði séð fyrir utan videófund síðasta fimmtudag. Sú fundur var fjörutíu mínútur og svo fengum við búta úr leikjum til að skoða á Facebook. Maður lá yfir því. Á myndböndunum gat ég varla séð hver var hvað og því vissi ég ekki alveg við hverju ég átti að búast en sem betur fer mættu þeir ekki með glænýjan leikmann eins og stundum hefur gerst í Evrópukeppnunum. Ég bjóst hins vegar ekki við því að við myndum ná svona stórum sigri því þeir eru í 2. sæti í Rúmeníu. Þeir eru góðir og þetta verður hörkuleikur úti. Þeir hljóta að fylla höllina og ætla sér að vinna okkur með níu marka mun,“ sagði Ýmir við mbl.is að leiknum loknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert