Sigtryggur skorar og skorar

Sigtryggur Daði Rúnarsson hefur heldur betur verið drjúgur fyrir lið …
Sigtryggur Daði Rúnarsson hefur heldur betur verið drjúgur fyrir lið Aue undanfarnar vikur.

Handknattleiksmaðurinn efnilegi Sigtryggur Daði Rúnarsson hélt uppteknum hætti í þýsku B-deildinni í dag og skoraði 10 mörk fyrir Aue í öruggum sigri liðsins á Saarlouis, 36:25.

Sigtryggur Daði, sem er sonur Rúnars Sigtryggssonar, þjálfara Balingen, hefur nú skorað 35 mörk í síðustu fjórum leikjum Aue. Árni Sigtryggsson, föðurbróðir hans, skoraði 3 mörk fyrir Aue í dag en varnarjaxlinn Bjarki Már Gunnarsson komst ekki á blað.

Ragnar Jóhannsson var líka mjög atkvæðamikill og skoraði 7 mörk fyrir Hüttenberg í sigri á Neuhausen, 34:28. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar lið Hüttenberg sem er í hörðum slag um sæti í efstu deild.

Aron Rafn Eðvarðsson landsliðsmarkvörður og samherjar í Bietigheim eru í sömu baráttu og unnu nauman en mikilvægan heimasigur á Leutershausen í dag, 25:24. Aron lék fyrri hálfleikinn í dag og varði 5 skot.

Oddur Gretarsson skoraði 5 mörk fyrir Emsdetten sem vann Hamm, 29:26. Fannar Þór Friðgeirsson gerði 2 mörk fyrir Hamm.

Ólafur Bjarki Ragnarsson lék ekki með Eisenach sem tapaði á heimavelli, 23:24, fyrir Dessauer.

N-Lübbecke er með 54 stig á toppnum þegar sex umferðir eru eftir og fer örugglega upp. Bietigheim með 46 stig, Hüttenberg með 43, Rimpar með 42, Bad Schwartau með 40 og Friesenheim með 39 stig eeru í slagnum um að fylgja þeim upp en þrjú efstu liðin komast í efstu deild.

Eisenach er með 34 stig í 8. sæti, Emsdetten 31 stig í 9. sæti, Aue 30 stig í 11. sæti og Hamm er með 26 stig í 17. sætinu, sem er fallsæti, en fjögur neðstu liðin falla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert