Aron fellur fljótt inn í hópinn

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik.
Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekkert launungamál að staða okkar er þannig í undankeppninni að við verðum að fá eins mörg stig úr þessum leikjum og mögulegt er,“ sagði Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla sem valdi í gær 16 leikmenn til þess að taka þátt í tveimur leikjum við Makedóníu í undankeppni Evrópumótsins.

Af þessum 16 leikmönnum voru 15 í landsliðinu sem Geir tefldi fram á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í janúar. Aðeins Guðmundur Hólmar Helgason verður fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Í hans stað kemur Aron Pálmarsson sem gat ekki verið með á HM vegna meiðsla. „Ekki þarf að fjölyrða hversu mikill styrkur það verður fyrir okkur að endurheimta Aron sem er er óðum að nálgast sitt fyrra leikform,“ sagði Geir í dag þegar hann tilkynnti um val sitt.

Íslenska landsliðið tvö stig í sínum riðli eftir sigur á Tékkum og tap fyrri Úkraínumönnum í undankeppninni sem hófst í byrjun nóvember í fyrra. Reyndar hafa liðinu fjögur í riðlinum tvö stig hvert og því hægt að segja liðin eigi jafna möguleika á að komast áfram í keppninni en þau tvö sem efst verða þegar riðlakeppninni lýkur 18.júní tryggja sér farseðilinn á Evrópumótið sem fram fer í Króatíu í janúar á næsta ári.

Geir segir að m.a. vegna úrslitakeppninnar hér heima, sem nú stendur hvað hæst, hafi hann ekki getað gert breytingar á hópnum hefði hann viljað. Það hafi sína kosti að geta nánast valið sama hóp og tók þátt í heimsmeistaramótinu í leikina tvo við Makedóníu. Leikirnir verða erfiðir. Sá fyrri verður í Skopje 4.maí og hinn síðari í Laugardalshöll sunnudaginn 7.maí.

„Aron hefur æft með okkur, bæði fyrir HM og eins í haust á síðasta sumri. Ég reikna þar af leiðandi með að hann falli fljótt inn í hópinn. Ég velti fyrir mér að gera eins til tvær breytingar á hópnum frá HM en það hafði mikið að segja að undirbúningstíminn er stuttur og þar af leiðandi væri einfaldasta skrefið að velja HM-hópinn eins og hann lagði sig að Guðmundi undanskildum sem er meiddur. Flestir leikmenn skiluðu ágætri vinnu á HM í Frakklandi og engin nauðsyn þess vegna að skipta mönnum út,“ sagði Geir.

Nýr landsliðsþjálfari hjá Makedóníu

Lino Cervar, sem stýrt hefur landsliði Makedóníu um árabil, hætt störfum fyrir skömmu og við tók Spánverjinn Raúl Gonzalez sem einnig stýrir Vardar Skopje, einu sterkasta félagsliði Evrópu. Geir segist reikna með að vegna þjálfaraskiptanna gæti leikur landsliðs Makedóníu tekið stakkaskiptum. Ef draga eigi ályktanir út frá því hvernig Vardar-liðið leikur þá býr Geir sig m.a. undir að landslið Makedóníu hætti að leggja megináherslu á að leika með sjö sóknarmenn eins og það vakti t.d. mikla athygli fyrir á heimsmeistaramótinu í Frakklandi, m.a. í viðureign við íslenska landsliðið sem lauk með jafntefli.

„Miðað við þær ályktanir sem ég dreg af leik Vardar-liðsins þá beitir Gonzalez lítið því bragði að leik með sjö menn í sókn,“ sagði Geir sem reiknar með fleiri breytingum á leik landsliðs Makedóníu frá því sem verið hefur m.a. áherslubreytingar á varnarleiknum. „Svo er það annað mál hversu miklu Gonzalez tekst að breyta á þeim fáu dögum sem landsliðið hefur til þess að vinna saman.

„Ég tel að til lengri tíma lítið hafi það mikil áhrif á leik landsliðs Makedóníu að nýr þjálfari hefur tekið við þjálfun þess frá því á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í janúar. Ég er tel að þjálfaraskiptin séu jákvæð fyrir landslið Makedóníu en að sama skapi kannski ekki eins góð tíðindi fyrir okkur. Gonzalez er afar öflugur þjálfari auk þess sem með nýjum manni þá koma ferskir vindar inn í hópinn. Við áttum til dæmis ekki í mestum vandræðum með sóknarleik Makedóníumanna. Erfiðleikar okkar lágu í öðru þáttum leiksins eins og til dæmi í okkar eigin sóknarleik,“ sagði Geir. 

Nokkur ný andlit í Noregi

Íslenska landsliðið tekur þátt í alþjóðlegu móti í Noregi 8. 9., og 10.júní . Nú liggur fyrir að þeir landsliðsmenn sem leika í Þýskalandi geta ekki tekið þátt í leikjunum í Noregi sem verða við landslið Noregs, Svíþjóðar og Póllands. Deildakeppninni verður ekki lokið í Þýskalandi á þessum tíma og heldur ekki í Frakklandi. Þar af leiðandi liggur fyrir að Geir mun fá kærkomið tækifæri til þess að leyfa reynsluminni leikmönnum að spreyta sig á mótinu í Noregi til viðbótar við reynslumeiri leikmenn sem leika með félagsliðum á Norðurlöndunum en deildakeppni þar verður lokið á þessum tíma.

„Í leikjunum í júní í Noregi mun ég gefa nokkrum hópi tækifæri á að spreyta sig og kannski munu einhverjir þeirra gera tilkall til sætið í landsliðinu sem mætir Tékkum 14.júní og Úkraínu fjórum dögum síðar í síðustu leikjum okkar í undankeppni EM.

Mér finnst talsverður efniviður í landsliðsmenn vera fyrir hendi hér á landi. Vissulega er aðstæður hér heima aðrar og kannski ekki eins og sumstaðar úti en það hafa leikmenn hér á landi tekið miklum framförum og vakið athygli mína. Ég er spenntur fyrir að sjá hvers þeir eru megnugir í erfiðari verkefnum. Væntanlega fáum við einhver svör í leikjunum í Noregi í júní,“ sagði Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.

Íslenska landsliðið kemur saman til undirbúnings í Frankfurt 1.maí vegna leikjanna við Makedóníu. Æft verður í aðstöðu á vegum þýska liðsins Grosswallstadt áður en farið verður til Skopje miðvikudaginn 3.maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert