Stjarnan mun óska eftir endurupptöku

Þórey Anna Ásgeirsdóttir sækir að vörn Stjörnunnar á Nesinu í …
Þórey Anna Ásgeirsdóttir sækir að vörn Stjörnunnar á Nesinu í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handknattleiksdeild Stjörnunnar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna úrskurðar mótanefndar HSÍ sem hefur dæmt Gróttu 10:0 sigur í leiknum gegn Stjörnunni í öðrum undanúrslitaleik liðanna í Olís-deildinni þar sem Stjarnan tefldi fram leikmanni sem var ekki á leikskýrslu.

Yfirlýsing Stjörnunnar:

„Handknattleiksdeild Stjörnunnar barst niðurstaða mótanefndar HSÍ um að Stjarnan hefði notað ólöglegan leikmann í leik Gróttu og Stjörnunnar í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta. Niðurstaða mótanefndar HSÍ er að Stjarnan hafi tapað leiknum 10-0.

Málsatvik voru á þann veg að leikmaður Stjörnunnar nr. 17, Nataly Sæunn Valencia, tók þátt í leiknum en var ekki á leikskýrslu. Handknattleiksdeild Stjörnunnar viðurkennir að um mannleg mistök hafi verið að ræða. Það er alveg skýrt af hálfu handkattleiksdeildar að engin ásetningur hafi verið fyrir hendi.

Ljóst er að  handknattleiksdeild Gróttu fékk tækifæri til að gefa yfirlýsingu um að úrslit leiksins myndu standa og óskaði handknattleiksdeild Stjörnunnar eftir því. Handknattleikdeild Gróttu tók þá ákvörðun að aðhafast ekkert frekar í málinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir forsvarsmanna handknattleiksdeildar Stjörnunnar og stendur því úrskurður mótanefndar HSÍ og Gróttu dæmdur sigur í leiknum.

Handknattleiksdeild Stjörnunnar harmar niðurstöðu mótsnefndar HSÍ og tilkynningu handknattleiksdeildar Gróttu til HSÍ. Stjarnan telur þessa niðurstöðu íþróttinni ekki til framdráttar.

Handknattleiksdeild Stjörnunnar mun senda inn ósk um endurupptöku ákvörðunar í málinu til HSÍ.“

F.H
Handknattleiksdeildar
Karl Daníelsson
formaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert