Afdrifaríkt athugunarleysi

Nataly Sæunn Valencia og Sunna María Einarsdóttir eru hér í …
Nataly Sæunn Valencia og Sunna María Einarsdóttir eru hér í baráttu í leik Stjörnunnar og Gróttu. mbl.is/Golli

Mótanefnd HSÍ úrskurðaði í gærkvöldi Gróttu sigur í annarri viðureign liðsins við Stjörnuna, 10:0, sökum þess að Stjarnan tefldi fram leikmanni í fyrrgreindum leik sem ekki var skráður á leikskýrslu. Niðurstaða mótanefndar HSÍ er studd með áliti frá lögmanni HSÍ og frá Handknattleikssambandi Evrópu þar skýrt sé að ekki sé heimilt að bæta nöfnum á leikskýrslu eftir að leikur er hafinn.

Ekki kom í ljós fyrr en eftir að leikur Gróttu og Stjörnunnar var byrjaður að þeim sem fyllti út leikskýrsluna fyrir hönd Stjörnunnar hafði láðst að skrá nafn Nataly Sæunnar Valencia. Nataly hefur tekið þátt í velflestum leikjum Stjörnunnar á keppnistímabilinu. Stjarnan vann leikinn, sem fram fór á sunnudag, 25:22, og jafnaði þar með undanúrslitarimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna, í 1:1. Nú er sú staða komin upp að Grótta hefur tvo vinninga en Stjarnan engan. Liðin mætast þriðja sinn í TM-höllinni í Garðabæ kl. 20. Grótta getur þar með tryggt sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins þriðja árið í röð með sigri í TM-höllinni í kvöld.

Karl Daníelsson, formaður handknattleiksdeildar Stjörnunnar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að Stjörnufólk væri miður sín yfir þessum mistökum og ekki hefði verið reynt að draga fjöður yfir þau. Stjarnan ætlaði hinsvegar ekki að una niðurstöðu mótanefndar og hefur óskað eftir endurupptöku.

Karl segist vera afar vonsvikinn yfir framkomu Gróttu því eftir viðureignina í gær hafi Stjörnumenn boðið forráðamönnum Gróttu að rita undir þar til gerða yfirlýsingu um að úrslit leiksins fengju að standa um leið og Stjarnan viðurkenndi mistök sín. „Gróttumenn tóku ekki afstöðu og vildu ekki gera frekar í málinu,“ segir Karl og bendir á að í framhaldinu hafi Grótta sent mótanefnd HSÍ tilkynningu um að Stjarnan hafi teflt fram leikmanni í fyrrgreindum leik sem ekki hafi verið skráður á leikskýrslu.

Nánar er fjallað um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert