„Eins súrt og það verður“

Elín Anna Baldursdóttir, leikstjórnandi Hauka.
Elín Anna Baldursdóttir, leikstjórnandi Hauka. mbl.is/Golli

„Þetta er eins súrt og það verður,“ sagði Elín Anna Baldursdóttir, leikstjórnandi Hauka, eftir 31:28 tap fyrir Fram eftir tvíframlengdan leik í Safamýri í kvöld. Haukar eru þar með farnir í sumarfrí eftir 3:0 tap í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta. 

„Það er grátlegt að við skulum ekki hafa vilja og kjark til að klára dæmið í leik þar sem við erum komnar sjö mörkum yfir. Við komum ákveðnar til leiks og ætluðum virkilega að berjast fyrir lífi okkar. Mér finnst mjög fúlt að tapa þessu einvígi 3:0 eftir þrjá hörkuleiki,“ sagði Elín og henni fannst vanta klókindi í sóknum Hauka þegar á leið. 

„Við misstum hausinn í sókninni. Klókindin vantaði hjá okkur og við fundum ekki lausnir eins og við gerðum framan af leiknum. Undir lok leiksins gerðum við klaufaleg mistök og vorum ekki nógu klókar, hvort sem þar var stress eða eitthvað annað.“

Elín viðurkennir að hún taldi að sigurinn yrði Hauka á meðan allt lék í lyndi út frá sjónarhóli Hafnfirðinga í leiknum. „Ég hélt að við myndum vinna þegar við vorum sjö mörkum yfir en við þekkjum Fram-liðið. Við vorum einnig yfir í fyrsta leiknum. Þær gefast aldrei upp og þær keyra hratt og skjóta sama hver staðan er. Á móti þessu liði er aldrei neitt gefið,“ sagði Elín Anna í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert