Fram í úrslit eftir tvær framlengingar

Maria Pereira sækir að vörn Fram í Safamýri í kvöld …
Maria Pereira sækir að vörn Fram í Safamýri í kvöld en til varnar er Ragnheiður Júlíusdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram leikur til úrslita á Íslandsmóti kvenna í handknattleik eftir sigur á Haukum 31:28 eftir tvíframlengdan spennuleik í Safamýri í kvöld. Fram sigraði samtals 3:0 í rimmu liðanna í undanúrslitum.

Fram vann þrjá nauma sigra í rimmunni þegar uppi var staðið en hinum leikjunum lauk 23:22 og 20:19. Í kvöld áttu Haukar alla möguleika á því að vinna og minnka muninn í rimmunni en tókst ekki. 

Fram mætir sigurvegaranum úr rimmu Stjörnunnar og Gróttu í úrslitum. 

Haukar voru yfir nánast allan leikinn í venjulegum leiktíma en dugði ekki til. Forskot Hauka var mest sjö mörk um tíma og tapið því verulega súrt fyrir Hauka. Fram jafnaði leikinn í fyrsta skipti síðan í stöðunni 1:1 á 58. mínútu og knúði fram framlengingu. Leikmenn Hauka voru mjög grimmir og ákveðnir í öllum sínum aðgerðum framan af leik en síðasta korterið eða svo fór sóknarleikurinn að verða erfiður hjá liðinu. Framarar söxuðu smám saman á forskotið og náðu að jafna eins og áður segir.

Í fyrri framlengingunni náðu Haukar tveggja marka forskoti en það dugði ekki heldur til. Fram skoraði tvívegis á lokamínútunni og jafnaði. Sigurbjörg Jóhannsdóttir jafnaði þegar 5 sekúndur voru eftir. Í annarri framlengingu var allur vindur úr Haukum eftir það sem á undan var gengið og Framarar gengu á lagið. 

Fram sigraði því 3:0 í rimmu liðanna sem er nokkuð sérstakt því allir leikirnir voru 50/50 leikir. Lið Fram, sem ekki sýndi sínar bestu hliðar í kvöld, leikur því til úrslita sem er þó viðeigandi miðað við leik liðsins í vetur. 

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst hjá Fram með 10 mörk og Steinunn Björnsdóttir gerði 7 mörk. Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 24 skot í markinu. Ramune Pekarskyte skoraði 10 mörk fyrir Hauka þrátt fyrir að vera tekin úr umferð á köflum. Ragnheiður Ragnarsdóttir og Maria Pereira skoruðu 5 mörk hvor sem og Guðrún Erla Bjarnadóttir sem skoraði úr 5 vítaköstum. Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 17 skot hjá Haukum. 

Fram 31:28 Haukar opna loka
80. mín. Fram tapar boltanum Tæp mínúta eftir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert