FH leikur um Íslandsmeistaratitilinn

FH-ingar fagna sigri og sæti í úrslitum Íslandsmótsins.
FH-ingar fagna sigri og sæti í úrslitum Íslandsmótsins. mbl.is/Árni Sæberg

FH leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Þetta varð ljóst eftir sigur FH gegn Aftureldingu í Kaplakrika í kvöld, 23:19. FH vann seríuna þar með 3:0 og mætir annaðhvort Val eða Fram í úrslitarimmu um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 8 mörk fyrir FH og var markahæstur allra leikmanna í leiknum.

Fyrri hálfleikur var mjög kaflaskiptur. Afturelding byrjaði af krafti og með grimman varnarleik í farteskinu náðu Mosfellingar 5:2 forystu. FH náði þá góðum kafla, þar sem heimamenn skoruðu fimm mörk í röð.

Gestirnir settu þá aftur í þriðja gír og þökk sé öðrum 5:2 kafla héldu leikmenn Aftureldingar með eins marks forystu inn í búningsklefa að loknum fyrri hálfleik, 10:9.

Mikk Pinnonen kom Aftureldingu í 11:9 í upphafi seinni hálfleiks en þá sögðu heimamenn hingað og ekki lengra. Ásbjörn Friðriksson dró vagninn í sókninni og Ágúst Elí Björgvinsson varði hvert dauðafærið á fætur öðru. Þetta skilaði FH 19:16 forystu þegar um 10 mínútur voru til leiksloka.

Mosfellingar reyndu allt til að jafna metin og notuðust meðal annars við sjö sóknarmenn. Gríðarlega sterk vörn FH gaf þó engin færi á sér og hægt og rólega fjaraði baráttuþrek Aftureldingar út. Lokatölur urðu 23:19 og nú bíða FH-ingar eftir því hverjir andstæðingar þeirra verða í úrslitarimmunni.

FH mætir Val eða Fram í úrslitum.
FH mætir Val eða Fram í úrslitum. mbl.is/Árni Sæberg
FH 23:19 Afturelding opna loka
60. mín. Leik lokið FH leikur um titilinn! Sanngjarnt hjá Hafnfirðingum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert