„Þetta hefur allt gerst mjög hratt“

Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að vörn Aftureldingar í Kaplakrika í …
Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að vörn Aftureldingar í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Gísli Þorgeir Kristjánsson lék stórt hlutverk í 23:19 sigri FH gegn Aftureldingu og lagði sitt á vogarskálarnar til að skila FH-ingum í úrslitaleikina um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

Gísli er fæddur 1999 og er á leiðinni í sitt stærsta verkefni á stuttum ferli í meistaraflokki. 

„Þetta hefur allt saman gerst mjög hratt. Þetta er bara búið að vera magnað ferli og verður vonandi þannig áfram. Þetta verður bara veisla!“

Þessi efnilegi leikmaður segir FH-inga hafa mætt til leiks með ákveðið leikskipulag og það hafi gengið fullkomlega upp gegn Aftureldingu.

„Markmiðið var að halda rónni allan tímann. Við vissum að þeir myndu vera æstir í byrjun og reyna að lemja okkur út úr leiknum. Það var mjög mikilvægt að halda bara áfram og ekki fyllast örvæntingu þrátt fyrir að þeir byrjuðu betur í leiknum.“

Varnarleikur FH var afskaplega sterkur og komust gestirnir hvorki lönd né strönd. Gísli sparar ekki hrósið til liðsfélaga sinna.

„Þetta var frábær vörn í kvöld. Við vorum ekki að æða út úr vörninni og fá klaufalegar brottvísanir, sem eru bara of dýrar í svona stórum og mikilvægum leikjum. Hafsentarnir þrír [Ágúst Birgisson, Jóhann Karl Reynisson og Ísak Rafnsson] voru gjörsamlega magnaðir.“

En hvort vill hann fá Val eða Fram í úrslitaleikjunum?

„Ég er svo sem ekkert að pæla í því núna. Hverjir sem verða andstæðingar okkar í úrslitunum, veit ég að við eigum eftir að gera góða hluti ef við leikum bara okkar leik.“

Faðir Gísla er Kristján Arason, sem er einn af albestu handboltamönnum sem Ísland hefur átt. Gísli getur ekki alveg byrjað strax á því að fara að bera saman verðlaunaskápa þeirra feðga.

„Hann er nú að vinna mig kallinn en sjáum til eftir nokkur ár,“ sagði Gísli brosandi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert