„Ekki meiningin að mafíukenna neinn“

Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka.
Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Ármannsson, þjálfari kvennaliðs Hauka í handknattleik, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla sinna eftir að Haukar féllu úr leik í undanúrslitarimmu sinni við Fram á miðvikudagskvöld.

Í viðtali við visi.is talaði Óskar um dómaramafíu og að menn ættu að „drullast til að taka sig saman í andlitinu.“ Óskar er að láta af störfum hjá Haukum, en yfirlýsingu hans í heild sinni má lesa hér að neðan.

Vegna umræðu sem skapast hefur um gagnrýni mína á dómgæslu í leikjum Hauka og Fram í Olísdeild kvenna langar mig koma eftirfarandi á framfæri.

Gagnrýni mín átti fyrst og fremst að beinast að dómgæslunni sem slíkri í leikjunum þremur þar sem mér fannst verulega hallað á mitt lið. Í viðtali sem birtist á Vísi segi ég að „dómaramafíunnar"sé mesta skömmin.

Af þessu tilefni vill ég taka fram að ekki var meiningin að mafíukenna einn né neinn og bið ég afsökunar á þeim orðum sem sögð voru í hita leiksins og tek undir að slíkt orðalag er of langt gengið og ekki viðeigandi. 

Hins vegar stend ég við gagnrýni mína að öðru leiti. Dómgæsla er snúin í handbolta enda leikurinn orðinn mjög hraður. Stjórnarmenn félaga, leikmenn og þjálfarar leggja gífurlega vinnu á sig til þess að svara kröfum nútímans hvað varðar allar kröfur sem leikurinn gerir. Því er mjög mikilvægt að gæði dómgæslu sé með þeim hætti að allir þessir aðilar hafi það á tilfinningunni að samræmis sé gætt á milli liða. Sú tilfinning er ekki fyrir hendi eftir þessa leiki og að því snýr gagnrýnin. Ég vona að hægt sé að ræða það málefnalega.

Óskar Ármannsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert