Óskar fékk tveggja leikja bann

Óskar Ármannsson.
Óskar Ármannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Ármannsson, fráfarandi þjálfari kvennaliðs Hauka í handknattleik, var í dag úrskurðaður í tveggja leikja bann vegna ummæla sem hann lét falla á dögunum. Haukar fá einnig fjársekt vegna þessa. 

Aganefnd HSÍ tók málið fyrir í dag og var þetta niðurstaðan en sektin hljóðar upp á 25 þúsund krónur. Ekki liggur fyrir hvenær Óskar tekur út leikbannið en ekki er útlit fyrir að hann starfi við þjálfun á næsta tímabili. 

Óskar lét þung orð falla í samtali við Vísi að loknum þriðja leik Hauka gegn Fram í undanúrslitum Íslandsmótsins en Haukar voru þá úr leik eftir þrjú töp í spennandi leikjum gegn Fram. Sneru ummælin að dómurum í leikjunum þremur og sagði hann til að mynda að Fram hafi skorað mörk sem réðu úrslitum í fyrsta leiknum sem ekki hefðu átt að standa. 

Í rökstuðningi aganefndar kemur eftirfarandi fram: „Aganefnd telur að með ummælum sínum hafi Óskar vegið að stétt handknattleiksdómara þar sem m.a. er notað orðið dómaramafía og séu jafnframt til skaða fyrir ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Niðurstaða aganefndar er að Óskar er úrskurðaður í 2ja leikja bann. Jafnframt er Haukum gert að greiða kr. 25.000 í sekt til HSÍ.“

Óskari var gefinn kostur á því að senda inn greinargerð vegna málsins og nýtti hann sér það. 

Sjá einnig: 

Viðtalið við Vísi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert