Patrekur tilbúinn fyrir krefjandi áskorun

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. AFP

„Verkefnið er krefjandi og ég geri mér grein fyrir því,“ sagði Patrekur Jóhannesson í samtali við mbl.is, en hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við Selfoss um að þjálfa karlalið félagsins. Hann mun einnig koma að þjálfun í akademíu Selfyssinga og gerir það samhliða störfum sínum sem landsliðsþjálfari Austurríkis.

„Maður er því miður svo lítið með landsliðið, verkefnin eru alltof sjaldan svo maður dettur sjálfur úr æfingu. Ég ræddi við mína menn í Austurríki og þeim fannst þetta því bara besta mál og eru sáttir,“ sagði Patrekur.

Patrekur hefur áður stýrt Stjörnunni, Val og síðast Haukum hér á landi. Þegar hann stýrði Val og Haukum var hann einnig orðinn landsliðsþjálfari Austurríkis og hefur því góða reynslu af því að þjálfa félagslið samhliða landsliðinu.

„Ég hætti hjá Haukum árið 2015 eftir mjög góðan tíma þar. Þá voru kynslóðaskipti að eiga sér stað í austurríska landsliðinu og miklar breytingar þar. Ég eyddi miklum tíma í Austurríki og er nú búinn að finna kjarnann sem ég mun nota næstu þrjú árin,“ segir Patrekur, sem einnig setti á fót svokölluðu B-landsliði sem aðstoðarmaður hans mun alfarið sjá um.

Þykir vænt um Stefán en svona er bransinn

Stefán Árnason, fráfarandi þjálfari Selfoss, stýrði liðinu upp úr 1. deildinni í fyrra og í 5. sæti deildarinnar í ár. Brotthvarf hans vakti töluverða athygli, þar sem hann sagði stjórnina vilja „stærra nafn“ en sig til liðsins og stjórnin sendi svo frá sér tilkynningu þar sem Stefán var sagður hafa misst traust leikmanna.

Patrekur segir að ráðning sín hafi ekki haft langan aðdraganda.

„Nei, ég myndi ekki segja það. Eftir að skýrðist með Stefán þá heyrði ég í þeim og fór yfir það. Ég var með 4-5 möguleika sem ég var að skoða og ég mat það sem svo að þetta væri besti kosturinn fyrir mig í þessari stöðu,“ sagði Patrekur, sem hafði úr störfum að velja sem bæði þjálfari meistaraflokka og yngri flokka hér heima.

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. mbl.is/Eva Björk

Patrekur segir að allt sé í góðu á milli sín og Stefáns, sem hann hefur mikla trú á sem þjálfari.

„Ég þekki pabba Stefáns vel [Árna Stefánsson] og við erum góðir vinir, og ég lét þá vita um leið þegar þetta kom upp. Mér þykir vænt um Stefán en svona er þetta í þessum bransa og ég hef upplifað það sjálfur. Stundum ganga hlutirnir ekki upp og það var þannig hjá mér með Val á sínum tíma. Auðvitað er það alltaf leiðinlegt en maður heldur bara áfram og ég er viss um að Stefán muni gera það enda frábær þjálfari.“

Gott að kúpla sig aðeins út úr daglegri þjálfun

Sem áður segir mun Patrekur einnig koma að þjálfun í akademíu Selfyssinga og er þar að taka nokkuð nýtt skref á sínum ferli. Patrekur hefur verið í meistaranámi í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík og á nú einungis meistaraverkefnið eftir.

„Það er í kollinum hjá mér að tengja það við starfið, hvort sem það verði í yngri flokkum eða meistaraflokkum. Ég hef verið aðstoðarkennari með Kristjáni Halldórssyni í HR og finn að það á vel við mig, svo ég hlakka líka til þess að takast á við verkefnið í akademíu Selfoss þar sem eru enn yngri krakkar,“ sagði Patrekur.

„Ég er búinn að taka flestallar gráður sem hægt er að taka í handboltafræðunum. Nú er ég íþróttafræðingur líka og að klára meistaranám, svo mér finnst ég þurfa að koma því til skila. Ég má ekki þjálfa félagslið í Austurríki samkvæmt samningnum mínum við sambandið þar, svo Ísland varð fyrir valinu.

Það var gott aðeins að fara út úr þessari daglegu félagsþjálfun. Nú er ég búinn að reyna að læra af öðrum og hlakka til að byrja,“ sagði Patrekur Jóhannesson að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert