Stór stund hjá Valsmönnum í Turda

Leikmenn Vals, þjálfarar og aðstoðarmenn fyrir utankeppnishöllina í Turda í …
Leikmenn Vals, þjálfarar og aðstoðarmenn fyrir utankeppnishöllina í Turda í Rúmeníu í dag áður en haldið var til æfingar. mbl.is/Ívar

Handknattleikslið Vals kom til Turda í Rúmeníu á öðrum tímanum í nótt eftir langt og strangt ferðalag frá Íslandi. Valsmenn leika við Potaissa Turda öðru sinni í undanúrslitum Áskorendakeppni karla í handknattleik í Turda á sunnudaginn kl. 15.

Valsliðið æfði í 75 mínútur í íþróttahöllinni í Turda í dag. Létt var yfir mönnum. Allir liðsmenn tóku þátt í æfingunni. Æft verður öðru sinni síðdegis á morgun og þá meiri áhersla lögð á einstaka þætti síðari viðureignarinnar  en gert var í dag.

Valur hefur átta marka forskot eftir fyrri viðureignina, 30:22, og getur með sama áframhaldi komist í úrslit keppninnar sem fram fer helgarnar 21.og 22.maí og 28.og 29.maí. Ljóst er að sigurliðið úr rimmu Vals og Poatissa Turda fær heimaleik síðari helgina en dregið var um það í morgun í höfuðstöðvum EHF. Hin viðureign undanúrslitanna er á milli Sporting Lissabon og Hurry Up frá Hollandi. Sporting hefur fimm marka forskot eftir öruggan sigur í fyrri leiknum í Hollandi.

Vel hefur verið tekið á móti Valsliðinu og fáeinum stuðningsmönnum þess sem með eru í förinni til Turda sem er um 50 þúsund manna bær suður af Cluj í Karpatafjöllunum í norðverstur hluta Rúmeníu.

Turda er í öðru sæti rúmensku deildarkeppninnar og hefur auk þess tryggt sér sæti í „final four” úrslitahelgi rúmensku bikarkeppninnar.  Að uppistöðu til er liðið skipað Rúmenum en einnig er að finna leikmenn frá nágrannaríkjum, m.a. Serbíu.

Mbl.is er með í för til Turda og mun m.a. vera með beina textalýsingu frá viðureigninni á sunnudaginn en uppselt var á leikinn á síðasta mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert