Löwen efst og átta íslensk mörk

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 5 mörk í kvöld.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 5 mörk í kvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski

Rhein-Neckar Löwen komst á ný á topp þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í kvöld með því að sigra Stuttgart örugglega á heimavelli, 30:21.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fimm mörk fyrir Löwen og Alexander Petersson þrjú og lið þeirra er nú stigi á undan Flensburg í einvígi liðanna um þýska meistaratitilinn. Löwen er með 55 stig og Flensburg 54 en Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, er með 47 stig í þriðja sæti þegar fjórum umferðum er ólokið.

Füchse Berlín náði í stig af mikilli seiglu í grannaslag gegn Magdeburg í Berlín. Gestirnir voru þremur mörkum yfir þegar stutt var eftir en Füchse skoraði þrjú síðustu mörkin og jafnaði í 25:25. Bjarki Már Elísson gerði 24. markið þegar 40 sekúndur voru eftir en hann skoraði 4 mörk í leiknum. Füchse heldur því fjórða sætinu með 45 stig en Magdeburg er með 44 stig í fimmta sæti.

Rúnar Kárason skoraði 3 mörk fyrir Hannover-Burgdorf sem tapaði heima fyrir Leipzig, 24:25, og Balingen, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, tapaði 33:25 fyrir Erlangen á útivelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert