Ágúst tekur við kvennaliði Vals

Ágúst Þór Jóhannssom tekur við kvennalið Vals í handknattleik.
Ágúst Þór Jóhannssom tekur við kvennalið Vals í handknattleik. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ágúst Þór Jóhannsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik. Hann hefur skrifað undir samning til 2020. Ágúst Þór þekkir vel til á Hlíðarenda, en hann þjálfaði kvennalið Vals um nokkurra ára skeið um og eftir aldamótin. 

Ágúst Þór tekur við starfinu af Alfreð Erni Finnssyni, sem sagt var upp störfum skömmu fyrir lok keppnistímabilsins. 

„Auk þess að þjálfa meistaraflokkinn mun Ágúst styðja við ungmennalið félagsins sem stefnt er að því að senda til keppni annað árið í röð. Jafnframt mun Ágúst styðja við metnaðarfullt starf handknattleiksdeildar í kvennaflokkum félagsins," segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild Vals. 

Ágúst Þór er þrautreyndur þjálfari. Hann stýrði íslenska kvennalandsliðinu um fimm ára skeið frá 2011 til 2016. Einnig hefur hann þjálfað kvennalið Levanger í Noregi og SönderjyskE í Danmörku, auk karla og kvennaliða Gróttu, Víkings, HK, Vals. Nú síðast var Ágúst Þór þjálfari karlaliðs KR sem vann sér þátttökurétt í úrvalsdeildinni í vor en var í kjölfarið lagt niður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert