Dregið í riðla fyrir EM – Hvert fer Ísland?

Ísland fagnar EM-sætinu á dögunum.
Ísland fagnar EM-sætinu á dögunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag er dregið í riðla fyrir lokakeppni Evrópumóts karla í handknattleik sem fram fer í Króatíu í janúar. Þar er Ísland í pottinum, tíunda mótið í röð, og er í fjórða og neðsta styrkleikaflokki.

Ljóst er að Ísland verður annaðhvort í A-riðli með Króatíu í Split eða B-riðli með Noregi í Porec. Þessum þjóðum var raðað í riðla fyrir fram eins og Slóveníu í C-riðil og Ungverjalandi í D-riðil, en báðar þær síðarnefndu eru í fjórða styrkleikaflokki ásamt Íslandi og eru því ekki inni í myndinni fyrir íslenska liðið í riðlakeppninni.

Í efsta styrkleikaflokki eru Þýskaland, Spánn, Króatía og Frakkland og þar eru helmingslíkur að Ísland mæti Króatíu. Í öðrum flokki eru Danmörk, Hvíta-Rússland, Svíþjóð, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, og Makedónía, en þar eru möguleikar á mögulegum mótherjum Íslands jafnir.

Í þriðja flokki eru Noregur, Serbía, Svartfjallaland og Tékkland og þar eru helmingslíkur á því að Noregur verði mótherjinn.

Fjórða liðið í fjórða styrkleikaflokki er svo Austurríki undir stjórn Patreks Jóhannessonar sem getur ekki lent með Íslandi í riðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert