Glíma fyrst við Kristján

Annað Evrópumótið í röð leikur Ísland í riðli með Króatíu, þegar EM í handbolta karla fer fram í byrjun næsta árs. Í þetta sinn verða Króatar á heimavelli en liðin leika í A-riðli í hafnarborginni Split ásamt Svíþjóð og Serbíu. Ísland mætir Svíþjóð í fyrsta leik, 12. janúar, því næst Króötum og loks Serbum. Þrjú efstu liðin komast í milliriðil með liðum úr B-riðli, en í honum eru heimsmeistarar Frakka, Hvíta-Rússland, Noregur og lærisveinar Patreks Jóhannessonar í Austurríki.

Króatar hafa um langt árabil verið með eitt albesta lið heims. Þeir hafa til að mynda komist í undanúrslit eða úrslit á síðustu sjö Evrópumótum; tvívegis náð í silfur og tvívegis í brons. Þeim hefur þó aldrei tekist að landa Evrópumeistaratitlinum en ætla sér að gera það á heimavelli og hafa horft til þessa móts síðustu ár. Í því skyni hefur Króatía meðal annars endurheimt þjálfarann Lino Cervar sem stýrði liðinu til eina heimsmeistaratitils þess hingað til, árið 2003, og ólympíumeistaratitils ári síðar.

Íslandi hefur gengið afar illa gegn Króatíu og ekki tekist að vinna liðið í sex tilraunum á stórmótum. Liðin léku saman í riðli á síðasta Evrópumóti, í Póllandi 2016, og þá vann Króatía 37:28 og sendi Ísland heim.

Kristján Andrésson komst lengst Íslendinga á HM í Frakklandi í janúar, sem þjálfari Svíþjóðar. Svíar fóru í 8-liða úrslit en féllu þar út eftir hörkuleik við meistara Frakka. Þetta var fyrsta stórmót Kristjáns sem þjálfara en hann tók við sænska liðinu í fyrrahaust. Áður en að EM kemur munu Ísland og Svíþjóð mætast í tveimur vináttulandsleikjum hér á landi í lok október.

Sjá greinina í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert