Ísland úr leik á HM

Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur í íslenska liðinu með 8 …
Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur í íslenska liðinu með 8 mörk. Ljósmynd/IHF

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 21 árs og yngri er úr leik á heimsmeistaramótinu eftir tap gegn Túnis, 28:27, í æsispennandi leik í 16 liða úrslitunum en mótið fer fram í Alsír.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Túnis var einu marki yfir í hálfleik, 14:13, og liðin skiptust á að hafa forystuna í seinni hálfleik. Túnis skoraði sigurmarkið þegar 15 sekúndur voru til leiksloka.

Það var jafnt á öllum tölum upp í 7:7 í fyrri hálfleik en þá náðu Íslendingar tveggja marka forystu. En Túnisar komu til baka og náðu að komast marki yfir áður en fyrri hálfleikur var allur.

Íslendingar fóru illa að ráði sínu í sóknarleiknum framan af síðari hálfleik og eftir tíu mínútna leik var Túnis yfir, 19:17. Þá tók við góður kafli hjá íslenska liðinu. Varnarleikurinn var góður á þessum kafla og Óðinn Þór Ríkharðsson var drjúgur í hraðaupphlaupunum og Íslendingar komust tveimur mörkum yfir, 22:20. Túnisar jöfnuðu metin í 23:23 þegar um tíu mínútur voru til leiksloka og eftir það var spennan mikil. Elvar Örn Jónsson jafnaði metin í 27:27 þegar um ein mínúta var eftir en Túnisbúar komust aftur yfir þegar um 15 sekúndur voru til leikloka og síðasta sókn íslenska liðsins fjaraði út.

Heilt yfir var varnarleikur íslenska liðsins ekki nægilega góður gegn þunglamalegum leikmönnum Túnis og sóknarleikurinn gekk ekki sem skildi. Grétar Ari Guðjónsson varði ágætlega í markinu í fyrri hálfleik en náði sér ekki á strik í þeim seinni. Niðurstaðan eru vonbrigði en íslenska liðið ætlaði sér lengra en í 16-liða úrslitin á þessu móti.

Mörk Íslands: Óðinn Þór Ríkharðsson 8/3, Elvar Örn Jónsson 5, Arnar Freyr Arnarsson 4, Sigtryggur Daði Rúnarsson 4, Ómar Ingi Magnússon 4/1, Aron Dagur Pálsson 1, Birkir Benediktsson 1.

Varin skot: Grétar Ari Guðjónsson 13/1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert