Kunna reglurnar betur en ég

Perla Ruth Albertsdóttir, leikmaður Selfoss.
Perla Ruth Albertsdóttir, leikmaður Selfoss. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er örlítið svekktur, þetta féll ekki með okkur og við erum óheppnar en ef þú skoðar leikinn þá er þetta kannski sanngjarnt,“ sagði Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, eftir 17:17 jafntefli gegn Fjölni í 2. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld.

„Þetta var hörkuleikur og Fjölnisstelpur mættu hrikalega vel stemmdar til leiks og við kannski aðeins á hælunum eftir frábær úrslit síðast sem ég bjóst svo sem alveg við. Þær áttu þetta bara skilið og við lærum af þessu.“

Selfyssingar hófu mótið á frábærum sigri gegn bikarmeisturum Stjörnunnar, er einhver hætta á að leikmenn hafi farið fram úr sér eftir þau úrslit?

„Kannski, já og nei. Við áttum góða æfingaviku og þetta virtist ekki vera að há okkur en kannski aðeins í undirmeðvitundinni. Við vorum ekki alveg klárar í byrjun en börðumst vel og ég bið ekki um meir.“

Sóknarleikurinn var slakur í kvöld, hjá báðum liðum, og Örn tók hann sérstaklega út eftir leik.

„Við skorum bara 17 mörk og það er ekki það sem við leggjum upp með. Sóknin var ekki góð á stórum köflum og við þurfum að gera betur en vörn og markvarsla var til fyrirmyndar.“

Selfyssingar héldu að þeir hefðu unnið leikinn á lokasekúndunni þegar Perla Ruth Albertsdóttir skoraði í autt Fjölnismarkið frá miðju. Dómararnir tóku sér langan tíma í að íhuga þetta áður en þeir dæmdu miðjuna ólöglega og markið stóð því ekki og Örn var ekki sérlega ánægður með þessa niðurstöðu en hann vildi þó ekki gagnrýna dómarana.

„Þeir segja að hún hafi stigið fram fyrir þegar hún tekur miðju, samt flauta þeir miðju og mark. En þeir kunna reglurnar betur en ég og ég verð að hlusta á það og taka þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert