Heimkoman eykur Breiðhyltingum bjartsýni

Björgvin Þór Hólmgeirsson og Sturla Ásgeirsson eru burðarásar í liði …
Björgvin Þór Hólmgeirsson og Sturla Ásgeirsson eru burðarásar í liði ÍR. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

ÍR-ingar eru aftur komnir upp í efstu deild karla í handboltanum eftir aðeins árs dvöl í næstefstu deild. Íþróttin á sér býsna langa sögu innan félagsins og hefur ÍR oftar en ekki verið í efstu deild hjá körlunum. Á síðustu árum hefur liðið hins vegar átt erfiðara með að festa sig í sessi á meðal bestu liða landsins. Markmið ÍR-inga um þessar mundir er að ná stöðugleika í efstu deild.

Forráðamenn handknattleiksdeildar hafa ekki farið leynt með það markmið sitt í sumar að koma ÍR aftur í fremstu röð. „Þetta undirstrikar enn fremur þá stefnu okkar að koma ÍR aftur í fremstu röð, þar sem við eigum heima,“ var til að mynda skrifað á Facebook-síðu handknattleiksdeildar ÍR í lok maí þegar tilkynnt var að Björgvin Þór Hólmgeirsson væri genginn í raðir uppeldisfélagsins á ný.

Björgvin verður illviðráðanlegur

Þeir ÍR-ingar sem greinarhöfundur hefur rætt við eru nokkuð bjartsýnir fyrir veturinn. Þrátt fyrir að ÍR-ingar séu nýliðar þá telja þeir sig tefla fram nokkuð sterku liði. Heimkoma Björgvins er meðal þess sem eykur Breiðhyltingum bjartsýni.

Björgvin stendur nú á þrítugu en hann átti afmæli 20. september. Síðast þegar Björgvin lék hér heima varð hann markahæsti leikmaður deildarinnar og var valinn leikmaður ársins af andstæðingum sínum í deildinni á lokahófi HSÍ. Sé Björgvin enn jafn kraftmikill og hann var þá er hægt að bóka að hann verður einn besti sóknarmaður deildarinnar. Hann gæti þurft nokkra leiki til að finna taktinn fyrir alvöru og þá verður Björgvin illviðráðanlegur í sókninni.

Vel hlúð að yngri flokkum

Í gegnum árin hafa ÍR-ingar nokkrum sinnum náð góðum árangri þegar sterkir árgangar hafa skilað mörgum leikmönnum upp í meistaraflokk.

Alla jafna er vel hlúð að yngri flokkum félagsins og gjarnan lagt upp með að byggja meistaraflokksliðið á heimamönnum. ÍR-liðið sem komst í undanúrslit Íslandsmótsins 1993 var að langmestu leyti byggt á uppöldum leikmönnum og sama má segja um ÍR-liðið sem spilaði til úrslita um titilinn áratug síðar.

Ítarlega kynningu á karlaliði ÍR í handknattleik má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert