Erum að sýna hvað býr í Fjölni

Kristján Örn Kristjánsson.
Kristján Örn Kristjánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölnismaðurinn Kristján Örn Kristjánsson var markahæsti maðurinn á vellinum með sjö mörk er nýliðarnir fengu heimsókn frá Íslands- og bikarmeisturum Vals í 3. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Eftir spennandi leik hafði Valur að lokum betur, 18:17. 

„Þetta var erfið byrjun hjá okkur. Við byrjuðum á því að skjóta illa en þegar leið á leikinn byrjaði þetta að rúlla betur. Við gáfum 100% í þetta og við ætluðum ekki að leyfa þeim að vinna með hálfum hug.“

Fjölnir fékk tækifæri til að jafna leikinn í síðustu sókninni en það gekk ekki eftir. 

„Það var dálítið taugatrekkjandi. Okkur langaði rosalega að skora en þú getur ekki skorað úr hverri sókn, svoleiðis er það bara. Þetta eru Íslandsmeistararnir og við vorum að koma upp úr 1. deildinni og við gáfum þeim góðan leik. Við erum að sýna þeim hvað býr í Fjölni.“

Fjölnir skoraði aðeins 17 mörk í leiknum, hvað mátti helst betur fara í sóknarleiknum? 

„Boltinn hefði mátt fljóta betur. Ég veit að ég Björgvin og Breki vorum að drippla of mikið og það var ekki að virka. Þá náðu þeir að færa, við þurftum að láta boltann ganga hraðar og fá færi. Við sýndum það í seinni hálfleik að við fengum alltaf færi þegar við gerðum það,“ sagði Kristján. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert