Naumur sigur meistaranna á nýliðunum

Íslandsmeistarar Vals höfðu betur gegn nýliðum Fjölnis, 18:17, í 3. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í dag í fyrsta heimaleik karlaliðs Fjölnis í efstu deild.

Leikurinn fór hægt af stað í markaskorun og voru liðin að spila töluvert betri varnarleik en sóknarleik. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 6:5, Valsmönnum í vil. Sigurður Ingiberg Ólafsson í marki Vals datt í gang í síðari hluta hálfleiksins og náðu Valsmenn þá tökum á leiknum og var staðan í hálfleik 12:9, Val í vil. Ásgeir Snær Vignisson spilaði vel í hægra horni Valsmanna í fyrri hálfleik og skoraði hann fjögur mörk í hálfleiknum.

Aftur fór markaskorunin hægt af stað í síðari hálfleik og vann Valur fyrstu 15 mínútur hans, 2:1. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var staðan 15:10. Ekki bætti úr skák fyrir Fjölni að Theodór Ingi Pálmason, einn þeirra besti maður, fékk sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald um miðjan seinni hálfleikinn. Fjölnismenn gátu þakkað Ingvari Kristni Guðmundssyni markmanni að munurinn var ekki meiri, en hann byrjaði seinni hálfleikinn vel.

Valur komst í 16:12, þegar skammt var eftir en Fjölnismenn neituðu að gefast upp. Þeim tókst að minnka muninn hægt og rólega undir lokin og var staðan 17:16 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Þegar staðan var 18:17 fengu Fjölnismenn tækifæri til að jafna leikinn í síðustu sókninni. Hún fór hins vegar forgörðum og Valsmenn tóku stigin tvö.

Kristján Örn Kristjánsson var markahæstur í liði Fjölnis með sjö mörk og Ásgeir Snær Vignisson var með fimm fyrir Val.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

Fjölnir 17:18 Valur opna loka
60. mín. Breki Dagsson (Fjölnir) skýtur framhjá Síðasta sókn Fjölnis fer forgörðum og Valsmenn halda út. Æsispennandi lokamínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert