Fórum með aragrúa af dauðafærum

Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. mbl.is/Golli

„Ég er fyrst og fremst ánægður með tvö stig, út á það gengur þetta. Ég var bæði óánægður með að vera ekki meira yfir í hálfleik og eins að koma þessu ekki í betri stöðu fyrr í leiknum. Án þess að taka eitthvað af Fjölnisliðinu, þá getum við sjálfum okkur um kennt,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, eftir nauman 18:17-sigur á Fjölni í 3. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.  

„Við fórum með aragrúa af dauðafærum, bæði hraðaupphlaup og víti. Kannski geta Fjölnismenn sagt það sama. Ég er fyrst og fremst mjög ósáttur með nýtinguna í sókninni. Það er sama á móti hvaða liði þú ert, þú býður hættunni heim ef þú nýtir ekki færin.“

Fjölnismenn fengu tækifæri til að jafna leikinn í síðustu sókn leiksins en það gekk ekki. Hvernig leið Snorra fyrir sóknina? 

„Mér leið nokkuð vel, við höfum frábæra vörn og Siggi var flottur í markinu.“

Tveir ungir strákar; Stiven Tobar Valencia og Þorgils Jón Svölu Baldursson, spiluðu í vinstra horninu hjá Val í dag í stað Vignis Stefánssonar. Þeir fengu báðir nokkuð mörg færi og var nýting þeirra ekki góð. 

„Þeir vita það manna best sjálfir að nýtingin þar var ekki nægilega góð. Við erum þar með 6-8 klikk sem er of mikið. Vignir var aðeins laskaður í dag og við ákváðum að hvíla hann. Þeir fengu tækifæri og hefðu getað nýtt það betur, en þeir eru frábærir handboltamenn og þeir fá annað tækifæri.“

Valur fékk aðeins 17 mörk á sig og var Snorri eðlilega sáttur við varnarleik sinna manna. 

„Við erum búnir að vera ánægðir með varnarleikinn í fyrstu þremur. Við erum með frábæra varnarmenn og Siggi var góður í dag, Einar var góður í síðasta leik. Okkur líður vel þegar við spilum vörn, við þurfum að fara að færa það yfir í fleiri skoruð mörk í hraðaupphlaupum. Ég var ánægður með færsluna fram en ekki nýtinguna í kjölfarið.“

Valsmenn hvíldu leikmenn sem hafa verið að spila mikið að undanförnu. Magnús Óli Magnússon og Árni Sigtryggsson voru t.d. mikið á bekknum. 

„Ég er mjög sáttur við breiddina. Það þurfa allir að vera klárir, það er enginn að fara að spila 60 mínútur í hverjum leik. Maggi hefur átt tvo frábæra leiki í byrjun, hann fann sig ekki alveg eins vel í dag. Við höfum alveg eins trú á Alex þar. Árni var veikur í gær og slappur í dag. Við ákváðum að spila á öðrum mönnum í dag og það gekk ágætlega,“ sagði Snorri Steinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert