Guðjón með fjögur í endurkomunni - Fyrsta tap Rúnars

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Ljósmynd/rhein-neckar-loewen.de

Rúnar Kárason skoraði eitt mark í fyrsta tapi Hannover-Burgdorf í 1. deild þýska handboltans í dag þar sem liðið beið lægri hlut gegn Leipzig, 25:23.

Frábær byrjun Hannover-Burgdorf hefur komið nokkuð á óvart en liðið vann fyrstu fimm leiki sína og hefur 10 stig á toppnum þrátt fyrir tapið. Füchse Berlín, lið Bjarka Más Elíssonar, á hins vegar tvo leiki til góða á Rúnar og félaga, og hefur 8 stig í 2. sæti.

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðssson kom til baka úr meiðslum í dag og skoraði fjögur mörk í stórsigri Rhein-Neckar Löwen á Lübbecke í sínum fyrsta leik á tímabilinu þar sem lokatölur urðu 36:27. Alexander Petersson skoraði fimm mörk í liði Löwen.

Guðjón Valur hefur glímt við meiðsli á kálfa í upphafi tímabils en virðist nú vera kominn í gang.

Löwen hefur 8 stig í 3. sæti eftir fimm leiki og getur því náð Hannover-Burgdorf að stigum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert