Dómararnir eiga ekki að láta plata sig

Guðmundur Helgi Pálsson.
Guðmundur Helgi Pálsson. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var að vonum svekktur eftir 35:33-tap gegn Selfossi í 3. umferð Olísdeildar karla í handbolta í Safamýri í kvöld. Framarar voru lengt af 4-5 mörkum undir í síðari hálfleik en þegar tvær mínútur voru til leiksloka tókst þeim að jafna í 33:33. Selfyssingar skoruðu hins vegar tvö síðustu mörkin og tryggðu sér sigurinn. 

„Þetta datt þeirra megin í dag. Ég hefði viljað fá eitt eða tvö stig fyrir þennan leik. Við vorum komnir langt undir á móti erfiðu og hröðu liði sem skorar nánast þegar það vill. Það er erfitt að vinna þann mun upp."

Guðmundur var sérstaklega óhress með varnarleik sinna manna í kvöld. 

„Fyrst og fremst var það fyrri hálfleikurinn sem klikkar. Við fengum allt of mörg mörk á okkur í honum. Við þurfum að taka til í vörninni og svo eru það þessir litlu hlutir eins og þeir fá átta fráköst og við tvö. Það skiptir máli og það er skortur af einbeitingu.“

„Menn eru að berjast á fullu en það er smá skipulagsleysi. Við vorum að reyna hluti í dag sem gengu ekki upp gegn góðum skyttum. Við þurftum að fara út í þá og þá opnaðist margt annað. Við tókum sénsinn og það dugði ekki í dag.“

Svanur Páll Vilhjálmsson, leikmaður Fram, fékk beint rautt spjald undir lok leiksins.

„Ég sá þetta ekki nógu vel en ef hann slær til hans er þetta rautt spjald. Svanur er það góður strákur að hann slær ekki til neins manns. Dómararnir eiga ekki að láta plata sig svona,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert