Hátíð og fullt hús á fimmtudaginn

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Fram er með flott lið, þetta er lið sem komst í undanúrslit í fyrra og sló Hauka út. Ég er ánægður að við skyldum koma okkur í þessa stöðu að vera 5-6 mörkum yfir á útivelli. Það var samt svekkjandi að vissu leyti að við skyldum ekki klára þetta öruggar,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir 35:33-sigur sinna manna gegn Fram á útivelli í 3. umferð Olísdeildar karla í handbolta í dag. 

„Að skora 35 mörk á útivelli er mjög gott en við þurfum að vinna í varnarleiknum helst. Framararnir eru með tvær öflugar skyttur, við vorum í 3-2-1 vörn og héldum þeim ágætlega niðri en svo voru þeir að komast í góð færi. Þetta er hluti af leiknum, við erum sterkir í sókninni og þurfum að fá þessa samvinnu eins og á móti Fjölni þar sem vörn og markvarsla var mjög góð.“

Eftir tap í fyrsta leik hefur Selfoss unnið tvo í röð. Patrekur er að sjálfsögðu ánægður með svar sinna manna. 

„Maður er alltaf ánægður þegar við vinnum. Mér finnst Framliðið flott og árangurinn í fyrra var góður og þeir náðu í stig á móti Stjörnunni í síðasta leik. Þeir eru með klókan þjálfara og ég er ánægður með að vinna.“

Það voru heldur fáir áhorfendur sem lögðu leið sína í Safamýrina í kvöld og hlakkar Patrekur til að fá heimaleik gegn Íslands- og bikarmeisturum Vals í næstu umferð. 

„Við fáum heimaleik á fimmtudaginn og það verður hátíð fyrir okkur og fullt hús. Það voru ekki mjög margir hérna í dag og við viljum fá stemningu á Selfossi eins og var á móti Fjölni, það var ótrúlegt.“

Framarinn Svanur Páll Vilhjálmsson fékk beint rautt spjald undir lok leiksins og Selfyssingurinn Atli Ævar Ingólfsson tvær mínútur eftir viðskipti þeirra. Patrekur segir að rauða spjaldið hafi verið óþarfi. 

„Mér fannst þetta ekki neitt. Þetta var klafs um eitthvað. Það hefði verið eðlilegast að láta Svan fá tvær mínútur og Atla ekki neitt. Það hefði ekki skipt neinu máli samt, leikurinn var búinn,“ sagði Patrekur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert