Seinni hálfleikur fór bara í rusl

Agnar Smári Jónsson kominn í skotfæri eftir að hafa leikið …
Agnar Smári Jónsson kominn í skotfæri eftir að hafa leikið á Júlíus Stefánsson, leikmann Gróttu. mbl.is/Eggert Jóhannsson

„Það hlýtur bara að vera kæruleysi í okkur í byrjun síðari hálfleik því við vorum með Gróttumenn í vasanum í fyrri hálfleik og hefðum getað verið með tíu eða tólf forskot í hálfleik. Við föllum í eitthvað dútl í síðari hálfleik,“ sagði Sigurbergur Sveinsson, markahæsti leikmaður ÍBV í naumum sigri á Gróttu í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í kvöld í Olís-deild karla. Lokatölur, 24:23, þar sem Eyjamenn voru heppnir að Grótta jafnaði ekki metin á síðustu sekúndum viðureignarinnar.

ÍBV var með sjö marka forskot í hálfleik, 16:9. Liðið virtist hafa öll ráð í hendi sér en annað kom á daginn í síðari hálfleik. Sigurbergur var vonsvikinn með síðari hálfleikinn eins og fleiri leikmenn ÍBV. „Við getum tekið margt gott út úr fyrri hálfleiknum með okkur heim en síðari hálfleikurinn var slakur. Ég hef bara engar skýringar á hvernig við gátum misst leikinn úr höndum okkar,“ sagði Sigurbergur sem skoraði átta mörk að þessu sinni.

„Við létum reka okkur út af í alltof oft í síðari hálfleik. Skýringin á því er hugsanlega að hugarfarið var ekki rétt hjá okkur. Seinni hálfleikur fór bara í rusl og var alveg hræðilegur. Þetta var bara viðbjóðslega lélegt hjá okkur og við svo sannarlega heppnir að fá bæði stigin þegar upp var staðið,“ sagði Sigurbergur Sveinsson, stórskytta ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert