Sóknarleikurinn allt of einhæfur

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að spila hörku vörn í 50 mínútur og svo komast þeir á lagið,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður og spilandi aðstoðarþjálfari Hauka, eftir 27:23 tap í grannaslagnum gegn FH í 3. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

Björgvin hrósaði Ásbirni Friðrikssyni, leikstjórnanda FH, sérstaklega en hann hefði viljað sjá sína menn gera betur í varnarleiknum undir lokin.

„Þeir fá allt of auðveld mörk á línunni og eru auðvitað með einn besta leikstjórnanda deildarinnar, Ása, sem er að spila frábærlega í þessum leik. Þó hann skori bara sjálfur fjögur mörk í þessum leik þá er hann að dæla inn á Gústa og Jóhann á línunni og þetta er erfitt við að eiga en við þurfum að gera betur varnarlega.“

Daníel Þór Ingason var markahæstur Hauka með 10 mörk en Björgvin segir að sóknarleikur liðsins sé of einhæfur.

„Sóknarleikurinn er stirður hjá okkur og við vitum það svo við þurfum að spila betri vörn. Við erum að halda þeim ágætlega niðri þangað til í lokin og getum verið sáttir með leikinn í heild sinni en við töpum dálítið hausnum í byrjun seinni hálfleiks og þá ná þeir yfirhöndinni andlega.“

„Við erum allt of einhæfir sóknarlega og við vitum það. Leonharð er að koma inn sem okkar örvhenti leikmaður í hægri skyttunni, ekki búinn að æfa mikið og búinn að vera meiddur en við tökum það jákvæða út úr þessu. Við höfum heilt yfir spilað vel í fyrstu þremur leikjunum og við verðum bara að byggja ofan á þessu.“

Haukar vilja að sjálfsögðu ekki bíða ósigurs gegn erkifjendum sínum í FH á Ásvöllum en Björgvin segir mikilvægt að dvelja ekki við þessi úrslit heldur halda áfram og byrja undirbúa næsta leik.

„Það er bara æfing á morgun og svo leikur á fimmtudaginn, við notum bara tapið til að ýta okkur lengra og svo vinnum við Stjörnuna á fimmtudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert