Vorum grátlega nærri stiginu

Bjarni Ófeigur Valdimarsson fór mikinn í sóknarleik Gróttu gegn ÍBV …
Bjarni Ófeigur Valdimarsson fór mikinn í sóknarleik Gróttu gegn ÍBV í kvöld. Hér sækir hann að Magnúsi Stefánssyni. mbl.is/Eggert

„Eftir að hafa unnið upp forskot Eyjamanna í tvígang þá fengum við færi til þess að jafna metin en það var ekkert annað en óheppni það tókst ekki,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, eftir naumt tap, 24:23, fyrir ÍBV í 3. umferð Olís-deildar karla í handknattleik í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. 

„Seinni hálfleikur var frábær hjá strákunum. Þeir sýndu mikinn karakter með Hreiðar Levý í stuði í markinu og Bjarna Ófeig í sóknarleiknum að vinna upp forskot Eyjamanna og vera grátlega nærri að fá annað stigið,“ sagði Kári og nefndi enn fremur til sögunnar Ásmund Atlason, ungan miðjumann Gróttuliðsins, sem lék vel að þessu sinni.

Kári segir að leikmenn sínir hafi verið reynslunni ríkari frá síðasta leiknum í deildinni, gegn ÍR. „Þá gáfust menn upp í síðari hálfleik í vondri stöðu. Þá féll liðið eins spilaborg og fyrir vikið var leiktíminn lengi að liða. Við minntum menn á þá raun um leið og við gerðum strákunum fyrir að við gætum strítt vel mönnuðu liði ÍBV á góðum degi. Seinni hálfleikur færði okkur heim sanninn í þeim efnum,“ sagði Kári Garðarsson en lið hans er enn án stiga eftir þrjá leiki í Olís-deildinni og situr á botninum.

„Stigin fara að koma. Við verðum bara að halda áfram að hafa trú á eigin getu og leika af krafti. Takist það hef ég trú á að veturinn fram undan verði okkur góður,“ sagði Kári Garðarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert