Söguleg viðureign Víkings í Meistaradeildinni

Halla María Helgadóttir er hér í leik með Stjörnunni gegn …
Halla María Helgadóttir er hér í leik með Stjörnunni gegn Víkingi þar sem hún spilaði áður. mbl.is/Árni Sæberg

Í gær voru liðin 24 ár síðan fyrsti leikur Meistaradeildar Evrópu í handknattleik kvenna fór fram í núverandi mynd en þar voru þáverandi Íslandsmeistarar Víkings í eldlínunni.

Víkingur mætti þá liði Mar Valencia á Spáni í tveimur leikjum í 32ja liða úrslitum Evrópukeppni meistaraliða, en þennan vetur 1993/1994 er miðað við að fyrirkomulagi núverandi Meistaradeildar hafi verið tekið upp. Þennan fyrsta leik keppninnar tapaði Víkingur 26:16 og síðari leiknum enn stærra, 29:10.

Spænska liðið var eitt það sterkasta í Evrópu á þessum tíma. Liðið vann 20 meistaratitla í röð á Spáni á árunum 1979-1998 og spænska bikarinn 19 sinnum. Árið 1997 varð liðið svo fyrsta spænska kvennaliðið til þess að verða Evrópumeistari. Það var því erfitt verkefni fyrir höndum hjá Víkingum, sem unnu á þessum árum þrjá Íslandsmeistaratitla í röð – þá einu í sögu kvennaliðs félagsins.

Fengu að kenna á því innan og utan vallar

„Ég man ekki mikið úr leiknum nema bara hvað við vorum ótrúlega lélegar. Við áttum aldrei séns,“ sagði Halla María Helgadóttir fyrrverandi landsliðskona, í umfjöllun um leikinn á heimasíðu Evrópska handknattleikssambandsins sem rifjar hann upp í dag.

Halla María var markahæst í fyrri leiknum með fimm mörk, en hún fékk sendar blaðaúrklippur frá Spáni um leikinn þar sem kenndi ýmissa grasa:

„Leikurinn var mjög leiðinlegur þangað til á síðustu mínútunum þegar spænska liðið fór loksins að leika af ánægju,“ stóð í einni greininni og hún hélt áfram til þeirrar næstu: „Víkingur var ekki erfiður andstæðingur þrátt fyrir að hafa þrjá leikmenn íslenska landsliðsins.“ Við fengum því líka að kenna á því utan vallar,“ sagði Halla í léttum tón.

Úrklippur úr spænskum blöðum eftir leikinn.
Úrklippur úr spænskum blöðum eftir leikinn. Ljósmynd/Aðsend

Dómararnir vorkenndu Víkingum

Halla María segist ekki muna mikið eftir leiknum sjálfum, en man eftir að Víkingur fékk höfðinglegar móttökur á Spáni. Úrklippurnar úr spænsku blöðunum fari hins vegar ágætlega yfir leikinn.

„Ég man ekki mikið eftir dómurunum eða neinu slíku, en spænsku greinarnar segja að við höfum fengið svolítið gefins hjá þeim. Mig grunar að þeir hafi bara vorkennt okkur, það er mín tilfinning. Það er allavega ekki hægt að segja að þetta hafi verið ferð til fjár,“ sagði Halla og minnist helst skrautlegum atvikum utan vallar þar sem stór hluti liðsins festist meðal annars í lyftu.

Nánari umfjöllun um viðureign Víkings og Mar Valencia í fyrsta leik Meistaradeildar Evrópu má sjá HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert