Gefum þeim bara þetta stig

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði og lélegt hugarfar hjá okkur, það verður bara að segjast alveg eins og er,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir að hans menn misstu niður fjögurra marka forystu og gerðu 27:27 jafntefli við nýliða Víkings í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

Stjarnan var mikið mun sigurstranglegri fyrir þennan leik en barátta Víkinga var til fyrirmyndar og segir Einar að það líti út fyrir að sínir menn hafi vanmetið andstæðing kvöldsins.

„Það lítur þannig út allavega en það er örugglega enginn tilbúinn til þess að viðurkenna það. Það er bara lélegt hugarfar í leiknum, við erum ekki á fullum hraða og gerum ekkert af 100% krafti. Við eiginlega gefum þeim bara þetta stig.“

Heimamenn byrjuðu fyrri hálfleikinn afleitlega og byrjuðu svo þann síðari með sama hætti og viðurkennir Einar að hann hafi gert mistök í liðsvali sínu fyrir síðari hálfleikinn.

„Ég ætlaði að gefa mönnunum sem byrjuðu leikinn tækifæri á að bæta fyrir hvernig þeir hófu leikinn. Eftir á að hyggja þá eru það mistök af minni hálfu. Þeir strákar sem koma inn af bekknum eru sterkir þannig að þetta voru klárlega mistök hjá mér. Það er alveg ljóst að hugarfarið okkar í þessum leik er bara mjög slæmt.“

Vinstri skyttan Egidijus Mikalonis átti stórleik fyrir Víking í kvöld og skoraði 10 mörk, þ.m.t. jöfnunarmarkið í blálokin, og segir Einar að hann hefði sennilega átt að láta taka hann úr umferð.

„Sjálfsagt hefðum við kannski átt að taka úr umferð eða eitthvað þess háttar, eftir á að hyggja hefðum við sjálfsagt átt að gera það. En einhvern veginn fannst mér við vera með tök á þessum leik þangað til þetta hrynur síðustu fimm mínúturnar, vörnin var hroðalega í seinni hálfleik.“

Hvernig þurfa Stjörnumenn að svara þessum vonbrigðum?

„Við þurfum bara að fara inn í þessa viku og vinna vel í okkar málum, það er ljóst. Við ætluðum okkur tvö stig hérna í dag og aftur í næsta leik eins og í þeim öllum, við þurfum að sýna miklu betri frammistöðu en við gerðum hér í kvöld,“ sagði Einar að endingu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert